Búi bað hann hafa þökk fyrir og gaf Rauð fingurgull gott og mikið.
Rauður þakkaði honum gjöfina "og kom hér Búi," sagði hann, "ef svo ólíklega
er að þú komir aftur."
Búi kvað svo vera skyldu.
Hann háttar nú svo öllu sem Rauður hafði mælt, kom jólaaftan undir þessa
gnípu og dvaldist þar um hríð og sá þar ekki líklegt til dyra.
Búi drap þá hjöltum sínum á hamrinum og mælti: "Þú Dofri," sagði hann, "lúk
upp þú höll þína og lát inn farmóðan mann og langt að kominn. Þar byrjar
þinni tign."
En er Búi hafði þetta mælt þrem sinnum þá lét í hamrinum sem er gengur reið
og í því spratt í sundur hamarinn og urðu á dyr og því næst gekk kona í
dyrnar. Hún var mikil á allan vöxt. Hún var fögur að áliti og vel búin, í
rauðum kyrtli og allur hlöðum búinn, og digurt silfurbelti um sig. Hún hafði
slegið hár sem meyja siður er. Var það mikið og fagurt. Hún hafði fagra hönd
og mörg gull á og sterklegan handlegg og öll var hún listuleg að sjá. Hún
heilsaði hinum komna. Hann tók því vel. Hún spurði hann að nafni.
Hann sagði henni "eða hvert er þitt nafn eða kyn?"
Hún segir: "Eg heiti Fríður dóttir Dofra konungs eða því berð þú maður um
herbergi vor?" sagði hún.
"Eg vil hitta föður þinn og biðja hann jólavistar. Hann er einn frægastur
konungur."
Fríður mælti: "Ekki ertu ólíklegur maður að sjá. Kalla eg ráð að þú gangir
inn með mér."
Búi gerði svo. Fríður bað þá aftur lúkast hellinn og svo var. Þau gengu þá
um stund og lýsti af eldi. Hún sneri þá út að bjarginu í einum stað. Var þar
fyrir hurð og önnur og þá komu þau í lítið herbergi. Það var allt tjaldað og
ágæta vel um búið.
Fríður mælti: "Hér skaltu Búi setjast niður og hvíla þig og leggja af þér
vopn þín og vosklæði."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.