Viðarbolungur stóð á hlaðinu. Gekk hann þangað til og tók eitt tré hátt í
hönd sér, sneri síðan úr garði. Hann skaut stönginni fram fyrir sig og hljóp
þar eftir síðan. Hann fór stórlega mikið. Eigi létti hann fyrr en hann kom í
Kollafjörð. Var þá tekið til leiks. Ólöf sat á palli og á sína hönd henni
hvor, Örn austmaður og Búi. En er Kolfinnur kom í stofu svo búinn sem fyrr
var sagt þótti flestum mönnum hann vera heldur hæðilegur. Hann nam staðar á
gólfinu og litast um. Hann sá hvar reiðustóll stóð á gólfinu. Hann gekk
þangað og tók stólinn og setti að framan þar sem Ólöf sat. Kolfinnur settist
síðan á stólinn og sat þar þann dag allan.
Um kveldið gekk hann heim. Hann gekk á til stofu. Móðir hans heilsaði honum
og spurði hvar hann hefði verið. Hann sagði henni.
Hún mælti: "Hversu þótti þér þar að litast um?"
"Gott," sagði hann.
Skaltu fara þangað oftar?" sagði hún.
Kolfinnur segir: "Ekki þykist eg lausgeðjaður," sagði hann, "í athöfnum
mínum. Þykir mér nú von að eg veiti þér þetta að ganga þangað um hríð."
Hún mælti: "Það vil eg þó að þú hafir klæði sæmileg son minn og vopn góð og
mann til fylgdar," sagði hún.
"Það vil eg eigi," sagði hann, "vil eg halda búnaði mínum svo búið. Mun eg
og öngan mann með mér draga."
"Þú munt ráða vilja," sagði hún.
Eftir um morguninn gekk Kolfinnur til Kollafjarðar og háttaði öllu sem hinn
fyrra dag. Svo fór fram öndverðan vetur að þessir þrír menn háttuðu svo
ferðum sínum. Engi þeirra mælti við annan, hvorki gott né illt. Engi mælti
og það við Ólöfu að eigi heyrði annar. Öllum svaraði hún þeim kurteislega.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.