Þá mælti bæjarmaðurinn: "Hver er þessi maður?"
Kjartan sagði nafn sitt.
Bæjarmaður mælti: "Þú ert sundfær vel eða ertu að öðrum íþróttum jafn vel
búinn sem að þessi?"
Kjartan svarar og heldur seint: "Það var orð á þá er eg var á Íslandi að þar
færu aðrar eftir. En nú er lítils um þessa vert."
Bæjarmaður mælti: "Það skiptir nokkuru við hvern þú hefir átt eða hví spyrð
þú mig engis?"
Kjartan mælti: "Ekki hirði eg um nafn þitt."
Bæjarmaður segir: "Bæði er að þú ert gervilegur maður enda lætur þú
allstórlega. En eigi því síður skaltu vita nafn mitt eða við hvern þú hefir
sundið þreytt. Hér er Ólafur konungur Tryggvason."
Kjartan svarar engu og snýr þegar í brott skikkjulaus. Hann var í
skarlatskyrtli rauðum. Konungur var þá mjög klæddur. Hann kallar á Kjartan
og bað hann eigi svo skjótt fara. Kjartan víkur aftur og heldur seint. Þá
tekur konungur af herðum sér skikkju góða og gaf Kjartani, kvað hann eigi
skikkjulausan skyldu ganga til sinna manna. Kjartan þakkar konungi gjöfina
og gengur til sinna manna og sýnir þeim skikkjuna. Ekki létu hans menn vel
yfir þessu, þótti Kjartan mjög hafa gengið á konungs vald. Og er nú kyrrt.
Veðráttu gerði harða um haustið. Voru frost mikil og kuldar. Heiðnir menn
segja það eigi undarlegt að veðrátta léti illa: "Geldur að nýbreytni konungs
og þessa hins nýja siðar er goðin hafa reiðst."
Íslendingar voru allir saman um veturinn í bænum. Var Kjartan mjög fyrir
þeim. Veðrátta batnar og komu menn fjölmennt þá til bæjarins að orðsending
Ólafs konungs. Margir menn höfðu við kristni tekið í Þrándheimi en hinir
voru þó miklu fleiri er í móti voru.
Einnhvern dag átti konungur þing í bænum út á Eyrum og talaði trú fyrir
mönnum, langt erindi og snjallt. Þrændir höfðu her manns og buðu konungi
bardaga í mót. Konungur kvað þá vita skyldu að hann þóttist átt hafa við
meira ofurefli en berjast þar við þorpara í Þrándheimi. Skaut þá bóndum
skelk í bringu og lögðu allt á konungs vald og var margt fólk þá skírt. En
síðan var slitið þinginu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.