Í þenna tíma voru margir menn íslenskir í Noregi, þeir er virðingamenn voru.
Lágu þar fyrir bryggjunum þrjú skip er íslenskir menn áttu öll. Eitt skip
átti Brandur hinn örvi son Vermundar Þorgrímssonar. Annað skip átti
Hallfreður vandræðaskáld. Þriðja skip áttu bræður tveir. Hét annar Bjarni en
annar Þórhallur. Þeir voru synir Breiðár-Skeggja austan úr Fljótshlíð.
Þessir menn allir höfðu ætlað um sumarið út til Íslands en konungur hafði
lagt farbann fyrir skip þessi öll því að þeir vildu eigi taka við sið þeim
er hann bauð. Allir íslenskir menn fagna vel Kjartani en þó Brandur best því
að þeir voru mjög kunnir áður. Báru nú Íslendingar saman ráð sín og kom það
ásamt með þeim að níta sið þeim er konungur bauð og höfðu þessir allir
samband þeir sem fyrr voru nefndir. Þeir Kjartan lögðu nú skipinu við
bryggjur og ruddu skipið og stöfuðu fyrir fé sínu. Ólafur konungur var í
bænum. Hann spyr skipkomu þessa og það með að þar munu þeir menn margir á
skipi er mikilhæfir eru.
Það var um haustið einn góðan veðurdag að menn fóru úr bænum til sunds á ána
Nið. Þeir Kjartan sjá þetta. Þá mælti Kjartan til sinna félaga að þeir mundu
fara til sundsins að skemmta sér um daginn. Þeir gera svo. Einn maður lék
þar miklu best. Þá spyr Kjartan Bolla ef hann vilji freista sunds við
bæjarmanninn.
Bolli svarar: "Ekki ætla eg það mitt færi."
"Eigi veit eg hvar kapp þitt er nú komið," segir Kjartan, "og skal eg þá
til."
Bolli svarar: "Það máttu gera ef þér líkar."
Kjartan fleygir sér nú út á ána og að þessum manni er best er sundfær og
færir niður þegar og heldur niðri um hríð. Lætur Kjartan þenna upp. Og er
þeir hafa eigi lengi uppi verið þá þrífur sá maður til Kjartans og keyrir
hann niður og eru niðri ekki skemur en Kjartani þótti hóf að, koma enn upp.
Engi höfðust þeir orð við. Hið þriðja sinn fara þeir niður og eru þeir þá
miklu lengst niðri. Þykist Kjartan nú eigi skilja hversu sjá leikur mun fara
og þykist Kjartan aldrei komið hafa í jafnrakkan stað fyrr. Þar kemur að
lyktum að þeir koma upp og leggjast til lands.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.