33. kafli - Af draumum Guðrúnar
Gestur Oddleifsson bjó vestur á Barðaströnd í Haga. Hann var höfðingi mikill
og spekingur að viti, framsýnn um marga hluti, vel vingaður við alla hina
stærri menn og margir sóttu ráð að honum. Hann reið hvert sumar til þings og
hafði jafnan gistingarstað á Hóli.
Einhverju sinni bar enn svo til að Gestur reið til þings og gisti á Hóli.
Hann býst um morguninn snemma því að leið var löng. Hann ætlaði um kveldið í
Þykkvaskóg til Ármóðs mágs síns. Hann átti Þórunni systur Gests. Þeirra
synir voru þeir Örnólfur og Halldór.
Gestur ríður nú um daginn vestan úr Saurbæ og kemur til Sælingsdalslaugar og
dvelst þar um hríð. Guðrún kom til laugar og fagnar vel Gesti frænda sínum.
Gestur tók henni vel og taka þau tal saman og voru þau bæði vitur og orðig.
En er á líður daginn mælti Guðrún: "Það vildi eg frændi að þú riðir til vor
í kveld með allan flokk þinn. Er það og vilji föður míns þótt hann unni mér
virðingar að bera þetta erindi og það með að þú gistir þar hvert sinn er þú
ríður vestur eða vestan."
Gestur tók þessu vel og kvað þetta skörulegt erindi en kvaðst þó mundu ríða
svo sem hann hafði ætlað.
Guðrún mælti: "Dreymt hefir mig margt í vetur en fjórir eru þeir draumar er
mér afla mikillar áhyggju en engi maður hefir þá svo ráðið að mér líki og
bið eg þó eigi þess að þeir séu í vil ráðnir."
Gestur mælti þá: "Seg þú drauma þína. Vera má að vér gerum af nokkuð."
Guðrún segir: "Úti þóttist eg vera stödd við læk nokkurn og hafði eg
krókfald á höfði og þótti mér illa sama og var eg fúsari að breyta faldinum
en margir töldu um að eg skyldi það eigi gera. En eg hlýddi ekki á það og
greip eg af höfði mér faldinn og kastaði eg út á lækinn og var þessi draumur
eigi lengri."
Og enn mælti Guðrún: "Það var upphaf að öðrum draum að eg þóttist vera stödd
hjá vatni einu. Svo þótti mér sem kominn væri silfurhringur á hönd mér og
þóttist eg eiga og einkar vel sama. Þótti mér það vera allmikil gersemi og
ætlaði eg lengi að eiga. Og er mér voru minnstar vonir þá renndi hringurinn
af hendi mér og á vatnið og sá eg hann aldrei síðan. Þótti mér sjá skaði
miklu meiri en eg mætti að líkindum ráða þótt eg hefði einum grip týnt.
Síðan vaknaði eg."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.