Ólafur fór utan um sumarið og kemur skipi sínu við Hörðaland. Þar bjó sá
maður skammt á land upp er hét Geirmundur gnýr, ríkur maður og auðigur og
víkingur mikill. Ódældarmaður var hann og hafði nú sest um kyrrt og var
hirðmaður Hákonar jarls hins ríka. Geirmundur fer til skips og kannast brátt
við Ólaf því að hann hafði heyrt hans getið. Geirmundur býður Ólafi til sín
með svo marga menn sem hann vildi. Það þiggur Ólafur og fer til vistar með
sétta mann. Hásetar Ólafs vistast þar um Hörðaland. Geirmundur veitir Ólafi
vel. Þar var bær risulegur og margt manna. Var þar gleði mikil um veturinn.
En er á leið veturinn sagði Ólafur Geirmundi deili á um erindi sín, að hann
vill afla sér húsaviðar, kvaðst þykja mikið undir að hann fengi gott
viðaval.
Geirmundur svarar: "Hákon jarl á besta mörk og veit eg víst ef þú kemur á
hans fund að þér mun sú innan handar því að jarl fagnar vel þeim mönnum er
eigi eru jafnvel menntir sem þú Ólafur ef hann sækja heim."
Um vorið byrjar Ólafur ferð sína á fund Hákonar jarls. Tók jarl við honum
ágæta vel og bauð Ólafi með sér að vera svo lengi sem hann vildi.
Ólafur segir jarli hversu af stóðst um ferð hans: "Vil eg þess beiða yður
herra að þér létuð oss heimila mörk yðra að höggva húsavið."
Jarl svarar: "Ósparað skal það þótt þú fermir skip þitt af þeim viði er vér
munum gefa þér því að vér hyggjum að oss sæki eigi heim hversdaglega slíkir
menn af Íslandi."
En að skilnaði gaf jarl honum öxi gullrekna og var það hin mesta gersemi,
skildust síðan með hinum mesta kærleik.
Geirmundur skipar jarðir sínar á laun og ætlar út til Íslands um sumarið á
skipi Ólafs. Leynt hefir hann þessu alla menn. Eigi vissi Ólafur fyrr en
Geirmundur flutti fé sitt til skips Ólafs og var það mikill auður.
Ólafur mælti: "Eigi mundir þú fara á mínu skipi ef eg hefði fyrr vitað því
að vera ætla eg þá munu nokkura á Íslandi að betur gegndi að þig sæju
aldrei. En nú er þú ert hér kominn við svo mikið fé þá nenni eg eigi að reka
þig aftur sem búrakka."
Geirmundur segir: "Eigi skal aftur setjast þótt þú sért heldur stórorður því
að eg ætla að fá að vera yðvar farþegi."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.