Ólafur segir: "Það skal eg yður kunnigt gera að vér ýttum af Noregi en þetta
eru hirðmenn Haralds konungs Gunnhildarsonar er hér eru innanborðs. En yður
er það frá ætt minni að segja herra að faðir minn býr á Íslandi, er
Höskuldur heitir. Hann er stórættaður maður. En móðurkyn mitt vænti eg að
þér munuð séð hafa fleira en eg því að Melkorka heitir móðir mín og er mér
sagt með sönnu að hún sé dóttir þín konungur og það hefir mig til rekið svo
langrar ferðar og liggur mér nú mikið við hver svör þú veitir voru máli."

Konungur þagnar og á tal við menn sína. Spyrja vitrir menn konung hvað
gegnast muni í þessu máli er sjá maður segir.

Konungur svarar: "Auðsætt er það á Ólafi þessum að hann er stórættaður
maður, hvort sem hann er vor frændi eða eigi, og svo það að hann mælir allra
manna best írsku."

Eftir það stóð konungur upp og mælti: "Nú skal veita svör þínu máli, að eg
vil öllum yður grið gefa skipverjum. En um frændsemi þá er þú telur við oss
munum vér tala fleira áður en eg veiti því andsvör."

Síðan fara bryggjur á land og gengur Ólafur á land og förunautar hans af
skipinu. Finnst þeim Írum nú mikið um hversu virðulegur þessi maður er og
víglegur. Fagnar Ólafur þá konungi vel og tekur ofan hjálminn og lýtur
konungi en konungur tekur honum þá með allri blíðu. Taka þeir þá tal með
sér. Flytur Ólafur þá enn sitt mál af nýju og talar bæði langt erindi og
snjallt. Lauk svo málinu að hann kvaðst þar hafa gull það á hendi er
Melkorka seldi honum að skilnaði á Íslandi "og sagði svo að þú konungur
gæfir henni að tannfé."

Konungur tók við og leit á gullið og gerðist rauður mjög ásýndar.

Síðan mælti konungur: "Sannar eru jartegnir en fyrir engan mun eru þær
ómerkilegri er þú hefir svo mikið ættarbragð af móður þinni að vel má þig
þar af kenna. Og fyrir þessa hluti þá vil eg að vísu við ganga þinni
frændsemi Ólafur að þeirra manna vitni er hér eru hjá og tal mitt heyra.
Skal það og fylgja að eg vil þér bjóða til hirðar minnar með alla þína
sveit. En sómi yðvar mun þar við liggja hvert mannkaup mér þykir í þér þá er
eg reyni þig meir."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa