Ólafur Höskuldsson er nú og frumvaxti og er allra manna fríðastur sýnum,
þeirra er menn hafi séð. Hann bjó sig vel að vopnum og klæðum. Melkorka
móðir Ólafs bjó á Melkorkustöðum, sem fyrr var ritað. Höskuldur veik meir af
sér umsjá um ráðahag Melkorku en verið hafði, kvaðst honum það þykja ekki
síður koma til Ólafs sonar hennar. En Ólafur kvaðst henni veita skyldu sína
ásjá slíka sem hann kunni að veita henni. Melkorku þykir Höskuldur gera
svívirðlega til sín. Hefir hún það í hug sér að gera þá hluti nokkura er
honum þætti eigi betur. Þorbjörn skrjúpur hafði mest veitt umsjá um bú
Melkorku. Vakið hafði hann bónorð við hana þá er hún hafði skamma stund búið
en Melkorka tók því fjarri.

Skip stóð uppi á Borðeyri í Hrútafirði. Örn hét stýrimaður. Hann var
hirðmaður Haralds konungs Gunnhildarsonar.

Melkorka talar við Ólaf son sinn þá er þau finnast að hún vill að hann fari
utan að vitja frænda sinna göfugra "því að eg hefi það satt sagt að
Mýrkjartan er að vísu faðir minn og er hann konungur Íra. Er þér og hægt að
ráðast til skips á Borðeyri."

Ólafur segir: "Talað hefi eg þetta fyrir föður mínum og hefir hann lítt á
tekið. Er þannig og fjárhögum fóstra míns háttað að það er meir í löndum og
kvikfé en hann eigi íslenska vöru liggjandi fyrir."

Melkorka svarar: "Eigi nenni eg að þú sért ambáttarsonur kallaður lengur. Og
ef það nemur við förinni að þú þykist hafa fé of lítið þá mun eg heldur það
til vinna að giftast Þorbirni ef þú ræðst þá til ferðar heldur en áður því
að eg ætla að hann leggi fram vöruna svo sem þú kannt þér þörf til ef hann
náir ráðahag við mig. Er það og til kostar að Höskuldi munu þá tveir hlutir
illa líka þá er hann spyr hvorttveggja, að þú ert af landi farinn en eg
manni gift."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa