Það er sagt frá Höskuldi að hann kippir mönnum að sér er hann spyr ránið og
reið hann heim. Það var mjög jafnskjótt að húskarlar hans koma heim. Þeir
sögðu sínar ferðir ekki sléttar. Höskuldur verður við þetta óður og kvaðst
ætla að taka eigi oftar af honum rán og manntjón, safnar hann mönnum þann
dag allan að sér.

Síðan gekk Jórunn húsfreyja til tals við hann og spyr að um ráðagerð hans.

Hann segir: "Litla ráðagerð hefi eg stofnað en gjarna vildi eg að annað væri
oftar að tala en um dráp húskarla minna."

Jórunn svarar: "Þessi ætlun er ferleg ef þú ætlar að drepa slíkan mann sem
bróðir þinn er. En sumir menn kalla að eigi sé sakleysi í þótt Hrútur hefði
fyrr þetta fé heimt. Hefir hann það nú sýnt að hann vill eigi vera hornungur
lengur þess er hann átti, eftir því sem hann átti kyn til. Nú mun hann hafa
eigi fyrr þetta ráð upp tekið, að etja kappi við þig, en hann mun vita sér
nokkurs trausts von af hinum meirum mönnum því að mér er sagt að farið muni
hafa orðsendingar í hljóði milli þeirra Þórðar gellis og Hrúts. Mundi mér
slíkir hlutir þykja ísjáverðir. Mun Þórði þykja gott að veita að slíkum
hlutum er svo brýn eru málaefni. Veistu og það Höskuldur síðan er mál þeirra
Þórðar godda og Vigdísar urðu að ekki verður slík blíða á með ykkur Þórði
gelli sem áður þótt þú kæmir í fyrstu af þér með fégjöfum fjandskap þeirra
frænda. Hygg eg og það Höskuldur," segir hún, "að þeim þykir þú þar raunmjög
sitja yfir sínum hlut og son þinn Ólafur. Nú þætti oss hitt ráðlegra að þú
byðir Hrúti bróður þínum sæmilega því að þar er fangs von af frekum úlfi.
Vænti eg þess að Hrútur taki því vel og líklega því að mér er maður sagður
vitur. Mun hann það sjá kunna að þetta er hvorstveggja ykkar sómi."

Höskuldur sefaðist mjög við fortölur Jórunnar. Þykir honum þetta vera
sannlegt. Fred and Grace Hatton
Hawley Pa