Þessu játtaði Höskuldur og lætur binda fastmælum.

Þetta líkaði Melkorku þungt, þótti fóstrið of lágt.

Höskuldur kvað hana eigi sjá kunna: "Er Þórður gamall maður og barnlaus og
ætla eg Ólafi allt fé eftir hans dag en þú mátt hitta hann ávallt er þú
vilt."

Síðan tók Þórður við Ólafi sjö vetra gömlum og leggur við hann mikla ást.
Þetta spyrja þeir menn er mál áttu við Þórð godda og þótti nú fjárheimtan
komin fastlegar en áður.

Höskuldur sendi Þórði gelli góðar gjafir og bað hann eigi styggjast við
þetta, því að þeir máttu engi fé heimta af Þórði fyrir laga sakir, kvað
Vigdísi engar sakir hafa fundið Þórði þær er sannar væru og til brautgangs
mættu metast "og var Þórður eigi að verr menntur þótt hann leitaði sér
nokkurs ráðs að koma þeim manni af sér er settur var á fé hans og svo var
sökum horfinn sem hrísla eini."

En er þessi orð komu til Þórðar frá Höskuldi og þar með stórar fégjafir þá
sefaðist Þórður gellir og kvaðst það hyggja að það fé væri vel komið er
Höskuldur varðveitti og tók við gjöfum og var þetta kyrrt síðan og um
nokkuru færra en áður.

Ólafur vex upp með Þórði godda og gerist mikill maður og sterkur. Svo var
hann vænn maður að eigi fékkst hans jafningi. Þá er hann var tólf vetra
gamall reið hann til þings og þótti mönnum það mikið erindi úr öðrum sveitum
að undrast hversu hann var ágætlega skapaður. Þar eftir hélt Ólafur sig að
vopnabúnaði og klæðum. Var hann því auðkenndur frá öllum mönnum. Miklu var
ráð Þórðar godda betra síðan Ólafur kom til hans. Höskuldur gaf honum
kenningarnafn og kallaði pá. Það nafn festist við hann.


17. kafli - Dauði Hrapps

Það er sagt frá Hrapp að hann gerðist úrigur viðureignar, veitti nú nábúum
sínum svo mikinn ágang að þeir máttu varla halda hlut sínum fyrir honum.
Hrappur gat ekki fang á Þórði fengið síðan Ólafur færðist á fætur. Hrappur
hafði skaplyndi hið sama en orkan þvarr því að elli sótti á hendur honum svo
að hann lagðist í rekkju af.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa