14. kafli - Þórólfur vó Hall

Ingjaldur hét maður. Hann bjó í Sauðeyjum. Þær liggja á Breiðafirði. Hann
var kallaður Sauðeyjargoði. Hann var auðigur maður og mikill fyrir sér.
Hallur hét bróðir hans. Hann var mikill maður og efnilegur. Hann var
félítill maður. Engi var hann nytjungur kallaður af flestum mönnum. Ekki
voru þeir bræður samþykkir oftast. Þótti Ingjaldi Hallur lítt vilja sig
semja í sið dugandi manna en Halli þótti Ingjaldur lítt vilja sitt ráð hefja
til þroska.

Veiðistöð sú liggur á Breiðafirði er Bjarneyjar heita. Þær eyjar eru margar
saman og voru mjög gagnauðgar. Í þann tíma sóttu menn þangað mjög til
veiðifangs. Var og þar fjölmennt mjög öllum misserum. Mikið þótti spökum
mönnum undir því að menn ættu gott saman í útverjum. Var það þá mælt að
mönnum yrði ógæfra um veiðifang ef missáttir yrðu. Gáfu og flestir menn að
því góðan gaum.

Það er sagt eitthvert sumar að Hallur bróðir Ingjalds Sauðeyjargoða kom í
Bjarneyjar og ætlaði til fangs. Hann tók sér skipan með þeim manni er
Þórólfur hét. Hann var breiðfirskur maður og hann var nálega lausingi einn
félaus og þó frálegur maður. Hallur er þar um hríð og þykist hann mjög fyrir
öðrum mönnum.

Það var eitt kveld að þeir koma að landi, Hallur og Þórólfur, og skyldu
skipta fengi sínu. Vildi Hallur bæði kjósa og deila því að hann þóttist þar
meiri maður fyrir sér. Þórólfur vildi eigi láta sinn hlut og var
allstórorður. Skiptust þeir nokkurum orðum við og þótti sinn veg hvorum.
Þrífur þá Hallur upp höggjárn er lá hjá honum og vill færa í höfuð Þórólfi.
Nú hlaupa menn í milli þeirra og stöðva Hall en hann var hinn óðasti og gat
þó engu á leið komið að því sinni og ekki varð fengi þeirra skipt. Réðst nú
Þórólfur á brott um kveldið en Hallur tók einn upp fang það er þeir áttu
báðir því að þá kenndi að ríkismunar. Fær nú Hallur sér mann í stað Þórólfs
á skipið. Heldur nú til fangs sem áður.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa