Þann vetur er Andríður bjó fyrstan í Brautarholti andaðist Helgi bjóla. Það
þótti mönnum hinn mesti skaði því að hann var hinn vinsælasti maður.

Um vorið skiptu þeir bræður föðurarfi sínum. Hafði Þorgrímur föðurleifð
þeirra og mannaforráð því að hann var eldri, en Arngrímur útjarðir. Hann
reisti bæ við fjörðinn er hann kallaði Saurbæ. Hann fékk borgfirskrar konu
er Ólöf hét. Þau gátu tvo sonu saman er hétu Helgi og Vakur. Þeir urðu
fræknir menn en ekki miklir á vöxt.

Þorgrímur reisti bú um vorið að Hofi. Var það brátt stórkostlegt enda stóðu
margar stoðir undir, vinir og frændur. Gerðist hann héraðsríkur. Hafði hann
mannaforráð allt til Nýjahrauns og kallað er Brundælagoðorð. Hann var
kallaður Þorgrímur goði. Hann var blótmaður mikill. Lét hann reisa hof mikið
í túni sínu. Það var hundrað fóta langt en sextugt á breidd. Þar skyldu
allir menn hoftoll til leggja. Þór var þar mest tignaður. Þar var gert af
innar kringlótt svo sem húfa væri. Það var allt tjaldað og gluggað. Þar stóð
Þór í miðju og önnur goð á tvær hendur. Frammi fyrir þar stóð stallur með
miklum hagleik ger og þiljaður ofan með járni. Þar á skyldi vera eldur sá er
aldrei skyldi slokkna. Það kölluðu þeir vígðan eld. Á þeim stalli skyldi
liggja hringur mikill af silfri ger. Hann skyldi hofgoði hafa á hendi til
allra mannfunda. Þar að skyldu allir menn eiða sverja um kennslumál öll. Á
þeim stalli skyldi og standa bolli af kopar mikill. Þar skyldi í láta blóð
það allt er af því fé yrði er Þór var gefið eða mönnum. Þetta kölluðu þeir
hlaut eða hlautbolla. Hlautinu skyldi dreifa yfir menn eða fé en fé það sem
þar var gefið til skyldi hafa til mannfagnaðar þá er blótveislur eru hafðar.
En mönnum er þeir blótuðu skyldi steypa ofan í fen það er úti var hjá
dyrunum. Það kölluðu þeir Blótkeldu. Þau þvertré voru í skálanum að Hofi er
verið höfðu í hofinu þá er Ólafur Jónsson lét bregða. Lét hann þá öll kljúfa
í sundur og voru þá enn alldigur.

Þorgrímur lét setja vorþing á Kjalarnesi suður við sjóinn. Enn sér stað
búðanna. Þar skyldi smámál sækja og þau ein til alþingis leggja er þar yrðu
eigi sótt eða stærst væru.

Þau Þorgrímur og Arndís gátu son saman. Sá hét Þorsteinn. Hann var
snemmendis uppivöðslumaður mikill og þótti allt lágt hjá sér.

Kolli bjó í Kollafirði sem fyrr var sagt. Hann fékk þeirrar konu er
Þorgerður hét, dóttur Eilífs úr Eilífsdal. Þau gátu dóttur saman er Ólöf
hét. Það var að ágætum gert hversu fögur hún var og því var hún kölluð Ólöf
hin væna.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa