Kári mælti: "Það vil eg að mann þenna, er Björn heitir og að vígum hefir
verið með mér, takir þú til þín og skiptir þú um bústaði við hann og fáir
honum bú algert hér hjá þér og halt svo hendi yfir honum að engri hefnd sé
til hans snúið og er þér það sjálfrátt fyrir sakir höfðingskapar þíns."

"Svo skal vera," segir Þorgeir.

Fékk hann þá Birni bú algert að Ásólfsskála en tók við búi í Mörk. Þorgeir
færði sjálfur hjón Bjarnar til Ásólfsskála og allt búferli hans. Þorgeir
sættist á öll mál fyrir Björn og gerði hann alsáttum sáttan við þá. Þótti
Björn nú miklu heldur maður en áður fyrir sér.

Kári reið í braut og létti eigi fyrr en hann kom vestur í Tungu til Ásgríms
Elliða-Grímssonar. Hann tók við Kára ágæta vel. Kári sagði honum frá öllum
atburðum þeim er orðið höfðu í vígum. Ásgrímur lét vel yfir því og spurði
hvað Kári ætlaðist þá fyrir.

Kári svaraði: "Eg ætla að fara utan eftir þeim og sitja svo að þeim og drepa
þá ef eg fæ náð þeim."

Ásgrímur sagði að hann væri engum manni líkur fyrir hreysti sína. Þar var
hann nokkurar nætur.

Síðan reið hann til Gissurar hvíta. Gissur tók við Kára báðum höndum. Kári
dvaldist þar nokkura stund. Hann sagði Gissuri að hann mundi ríða ofan á
Eyrar. Gissur gaf Kára sverð gott að skilnaði.

Reið hann nú ofan á Eyrar og tók sér þar fari með Kolbeini svarta. Hann var
orkneyskur maður og aldavinur Kára og var hinn kappsamasti og hinn vaskasti
maður. Tók hann við Kára báðum höndum og kvað eitt skyldu yfir þá ganga
báða.


153. kafli

Nú er þar til máls að taka er Flosi er, að þeir riðu austur til
Hornafjarðar. Fylgdu Flosa flestir allir þingmenn hans. Fluttu þeir þá
austur vöru sína og önnur föng og fargögn öll þau er þeir skyldu hafa með
sér. Síðan bjuggu þeir ferð sína og skip. Var Flosi nú við skipið þar til er
þeir voru búnir. En þegar er byr gaf létu þeir í haf. Þeir höfðu langa
útivist og veðráttu illa. Fóru þeir þá hundvillir. Fred and Grace Hatton
Hawley Pa