Nú kemur Björn heim og finnur Kára og segir honum allt um ferðir Sigfússona
og fyrirætlan þeirra. Kári kvað hann sýnt hafa í þessu vinskap mikinn og
trúleik við sig.

Björn mælti: "Það ætlaði eg ef eg héti nokkurum manni trausti mínu eða umsjá
að þeim skyldi mun í fara."

Húsfreyja hans mælti: "Fyrr væri illa en þú værir drottinsviki."

Kári dvaldist þar sex nætur síðan.


150. kafli

Kári talar nú við Björn: "Við skulum ríða austur um fjall og ofan í
Skaftártungu og fara leynilega um þingmannasveit Flosa því að eg ætla að
koma mér utan austur í Álftafirði."

Björn mælti: "Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og
eg."

Húsfreyja mælti: "Ef þú fylgir Kára illa þá skalt þú það vita að aldrei
skalt þú koma í mína rekkju sinn síðan. Skulu frændur mínir gera fjárskipti
með okkur."

"Það er líkara húsfreyja," segir Björn, "að fyrir öðru þurfi ráð að gera en
það beri til skilnaðar okkars því að eg mun mér bera vitni um það hver
garpur eða afreksmaður eg er í vopnaskipti."

Þeir ríða nú um daginn á fjall og aldrei almannaveg og ofan í Skaftártungu
og fyrir ofan bæi alla til Skaftár og leiddu hesta sína í dæl nokkura. En
þeir voru á njósn og höfðu svo um sig búið að þá mátti ekki sjá.

Kári mælti þá til Bjarnar: "Hvað skulum við til taka ef þeir ríða hér ofan
að okkur af fjallinu?"

"Munu eigi tveir til," segir Björn, "annaðhvort að ríða undan norður með
brekkunum og láta þá ríða um fram eða bíða ef nokkurir dveljast eftir og
ráða þá að þeim."

Margt töluðu þeir um þetta og hafði Björn í sínu orði hvort að hann vildi
flýja sem harðast eða hitt að hann vildi bíða og taka í móti og þótti Kára
að þessu allmikið gaman.

Nú er að segja frá Sigfússonum að þeir riðu þann dag heiman sem þeir höfðu
sagt Birni. Þeir komu í Mörk og drápu þar á dyr og vildu finna Björn en
húsfreyja gekk til dyra og heilsaði þeim. Þeir spurðu þegar að Birni.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa