Húsfreyja hans varð áheyrsla og mælti: "Tröll hafi þitt hól," sagði hún, "og
skrum og skyldir þú eigi mæla ykkur tál báðum og hégóma í þessu. En gjarna
vil eg veita Kára mat og aðra góða hluti þá er eg veit að honum má gagn að
verða. En á harðræði Bjarnar skalt þú Kári ekki treysta því að eg uggi að
þér verði að öðru en hann segir."

Björn mælti: "Oft hefir þú veitt mér ámæli en eg treysti mér svo vel að eg
mun fyrir engum manni á hæl hopa. Er hér raun til að því leita fáir á mig að
engir þora."

Þar var Kári nokkura stund á laun og var það á fárra manna viti. Ætluðu menn
nú að hann mundi riðinn norður um land á fund Guðmundar hins ríka því að
Kári lét Björn það segja nábúum sínum að hann hefði fundið Kára á förnum
vegi og riði hann þaðan upp á Goðaland og svo norður á Gásasand og svo til
Guðmundar hins ríka norður á Möðruvöllu. Spurðist það þá um allar sveitir.


149. kafli

Nú er þar til máls að taka er Flosi er. Hann mælti til brennumanna félaga
sinna: "Eigi mun oss enn duga kyrru fyrir að halda. Munum vér hljóta að
hugsa um utanferðir vorar og fégjöld og efna sættir vorar sem drengilegast,
taka oss fari þar hver er líkast þykir."

Þeir báðu hann fyrir sjá.

Flosi mælti: "Austur munum vér ríða til Hornafjarðar því að þar stendur skip
uppi er á Eyjólfur nef, þrænskur maður, en hann vill biðja sér konu og nær
hann eigi ráðinu nema hann setjist aftur. Munum vér kaupa skipið að honum
því að vér munum hafa fé lítið en margt manna. Er það skip mikið og mun það
taka oss upp alla."

Hættu þeir þá talinu

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa