"Ætlar þú þá munu lokið vígunum?" segir Flosi.

"Eigi ætla eg það," segir Hallur, "en við færri er þá um að eiga er við Kára
er einn. En ef þú sættist eigi við Þorgeir þá verður það þinn bani."

"Hverja sætt skulum vér bjóða honum?" segir Flosi.

"Hörð mun yður sú þykja," segir Hallur, "er hann mun þiggja. Því aðeins mun
hann sættast vilja nema hann gjaldi ekki fyrir það er hann hefir af gert en
taki bætur fyrir Njál og sonu hans að sínum þriðjungi."

"Hörð sætt er það," segir Flosi.

"Ekki er þér sjá sætt hörð," segir Hallur, "því að þú átt ekki vígsmál eftir
Sigfússonu og eiga bræður þeirra vígsmál eftir þá en Hámundur hinn halti
eftir son sinn. En þú munt nú ná sættum við Þorgeir því að eg mun ríða til
með þér og mun Þorgeir mér nokkurninn vel taka. En engi þeirra, er mál þessi
eiga, munu þora að sitja að búum sínum í Fljótshlíð ef þeir eru utan sætta
því að það verður þeirra bani. Og er það að vonum við skaplyndi Þorgeirs."

Var nú sent eftir Sigfússonum og báru þeir þetta mál upp við þá. Og lauk svo
þeirra ræðum af fortölum Halls að þeim þótti svo allt sem hann talaði um
fyrir þeim og vildu gjarna sættast.

Grani Gunnarsson mælti og Gunnar Lambason: "Sjálfrátt er oss ef Kári er einn
eftir að hann sé eigi óhræddari við oss en vér við hann."

"Ekki er svo að mæla," segir Hallur. "Mun yður verða sárkeypt við hann og
munuð þér mikið afhroð gjalda áður en lýkur með yður."

Síðan hættu þeir talinu.


147. kafli

Hallur af Síðu og Kolur son hans og þeir sex saman riðu vestur yfir
Lómagnúpssand og svo vestur yfir Arnarstakksheiði og léttu eigi fyrr en þeir
komu í Mýdal. Þar spurðu þeir að hvort Þorgeir mundi heima í Holti en þeim
var sagt að hann mundi heima vera. Hallur var spurður hvert hann ætlaði að
fara en hann kvaðst þangað ætla í Holt.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa