Ljótur mælti: "Ef eg sé að þeir Flosi þurfa liðs af mönnum vorum þá mun eg
þegar hlaupa til með þeim."

"Það munt þú gera sem þér líkar," segir Hallur, "en biðja vil eg þig að þú
bíðir mín."

Nú brestur flótti í liði Flosa og flýja þeir allir vestur um Öxará en þeir
Ásgrímur og Gissur hvíti gengu eftir og allur herinn. Þeir Flosi hörfuðu
neðan milli Virkisbúðar og Hlaðbúðar. Snorri goði hafði þar fylkt fyrir liði
sínu svo þykkt að þeim gekk eigi þar að fara.

Snorri goði kallað þá á Flosa: "Hví farið þér svo geystir eða hverjir elta
yður?"

Flosi svarar: "Ekki spyrð þú þessa af því er eigi vitir þú það áður. En
hvort veldur þú því er vér megum eigi sækja til vígis í Almannagjá?"

"Eigi veld eg því," segir Snorri, "en hitt er satt að eg veit hverjir valda
og mun eg segja þér ef þú vilt að þeir valda því að Þorvaldur kroppinskeggi
og Kolur."

Þeir voru þá báðir dauðir og höfðu verið hin mestu illmenni í liði Flosa.

Í annan stað mælti Snorri til sinna manna: "Gerið þér nú hvorttveggja að þér
höggvið og leggið til þeirra og keyrið þá í braut héðan. Munu þeir þá skamma
stund hér við haldast er hinir sækja að neðan. Skuluð þér þá ekki eftir
ganga og láta þá sjálfa á sjást."

Skafta Þóroddssyni var sagt að Þorsteinn holmunnur son hans var í bardaga
með Guðmundi hinum ríka mági sínum. Og þegar Skafti vissi þetta gekk hann
til búðar Snorra goða og ætlaði að biðja Snorra að hann gengi til að skilja
þá með honum. En er hann var eigi allt kominn að búðardyrunum Snorra þá var
bardaginn sem óðastur. Þeir Ásgrímur og hans menn gengu þar þá að neðan.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa