Hefir nú vottorð komið fyrir þá fjóra er bera áttu með oss. Skylda nú til
lög að bera fram kviðinn. Vorum vér kvaddir að bera um það hvort Flosi
Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga Njálssonar á þeim vettvangi er
Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða
mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Kvaddi hann oss
þeirra orða allra er oss skylda lög til um að skilja og hann vildi oss að
dómi beitt hafa og þessu máli áttu að fylgja. Kvaddi hann lögkvöð. Kvaddi
hann svo að vér heyrðum á. Kvaddi hann um handselt mál Þorgeirs Þórissonar.
Höfum vér nú allir eiða unnið og réttan kvið vorn og orðið á eitt sáttir,
berum á Flosa Þórðarson kviðinn og berum hann sannan að sökinni. Berum vér
svo skapaðan níu búa kvið þenna fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem
Mörður kvaddi oss að. Er sá kviður vor allra." sögðu þeir.

Í annað sinn báru þeir kviðinn og báru um sár fyrr en um frumhlaup síðar en
öll önnur orð báru þeir sem fyrr. Báru þeir á Flosa kviðinn og báru hann
sannan að sökinni.

Mörður Valgarðsson gekk að dómi og nefndi sér votta að búar þeir, er hann
hafði kvadda um sök þá er hann höfðaði á hönd Flosa Þórðarsyni, höfðu borið
á hann kviðinn og borið hann sannan að sökinni. Nefndi hann sér þessa votta
eða þeim er neyta eða njóta þyrftu þessa vættis.

Í annað sinn nefndi Mörður sér votta "nefni eg í það vætti," sagði hann, "að
eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum, er handselda lögvörn hefir
fyrir hann, að taka til varna fyrir sök þá er eg höfðaði á hönd honum því að
nú eru öll sóknargögn fram komin þau er sökinni eiga að fylgja að lögum,
borin vætti öll og búakviður og nefndir vottar að kviðburði og öllum gögnum
þeim er fram eru komin. En ef nokkur hlutur gerist sá í lögvörn þeirra er eg
þurfi til sóknar að hafa þá kýs eg sókn undir mig. Býð eg lögboði að dómi
svo að dómendur heyra."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa