Þá mælti Gissur: "Nú munum vér fyrst ganga til búðar Skafta Þóroddssonar."

Síðan gengu þeir til Ölfusingabúðar. Gissur hvíti gekk fyrstur, þá Hjalti,
þá Kári, þá Ásgrímur, þá Þorgeir skorargeir, þá bræður hans. Þeir gengu inn
í búðina. Skafti sat á palli. Og er hann sá Gissur hvíta stóð hann upp í mót
honum og fagnaði honum vel og öllum þeim og bað Gissur sitja hjá sér. Hann
gerir nú svo.

Gissur mælti þá til Ásgríms: "Nú skalt þú vekja til um liðsbón við Skafta en
eg mun þá til leggja slíkt er mér sýnist."

Ásgrímur mælti: "Til þess erum vér hingað komnir Skafti að sækja að þér
traust og liðsinni."

Skafti mælti: "Torsóttur þótti yður eg næstum vera er eg vildi ekki taka
undir vandræði yður."

Gissur mælti: "Nú er annan veg til farið. Nú er að mæla eftir Njál bónda og
Bergþóru húsfreyju er bæði voru saklaus inni brennd og eftir þrjá sonu Njáls
og marga aðra góða menn. Og munt þú aldrei það vilja gera að verða mönnum
eigi að liði og veita frændum þínum og mágum."

Skafti svarar: "Það var mér þá í hug er Skarphéðinn mælti við mig að eg
hefði sjálfur borið tjöru í höfuð mér og skorið á mig jarðarmen og hann kvað
mig orðinn svo hræddan að Þórólfur Loftsson af Eyrum bæri mig á skip út í
mjölkýlum sínum og flytti mig svo til Íslands, að eg mundi eigi eftir hann
mæla."

Gissur mælti: "Ekki er nú á slíkt að minnast því að sá er nú dauður er þetta
mælti og munt þú vilja veita mér þó að þú viljir eigi gera fyrir sakir
annarra manna."

Skafti svarar: "Þetta mál kemur ekki til þín nema þú viljir vasast í með
þeim."

Gissur reiddist þá mjög og mælti: "Ólíkur ert þú þínum föður. Þó að hann
þætti nokkuð blandinn varð hann þá mönnum jafnan að liði er menn þurftu hans
mest."

Skafti mælti: "Vér erum óskaplíkir. Þið þykist hafa staðið í stórræðum. Þú
Gissur hvíti, þá er þú sóttir Gunnar að Hlíðarenda en Ásgrímur af því er
hann drap Gauk fóstbróður sinn."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa