Flosi sté undir borð og allir menn hans en lögðu vopn sín upp að þili. Þeir
sátu á forsætum er eigi máttu uppi sitja á bekkjunum en fjórir menn stóðu
með vopnum fyrir framan þar sem Flosi sat meðan þeir mötuðust. Ásgrímur
þagði um matmálið og var svo rauður á að sjá sem blóð. En er þeir voru
mettir báru konur af borðum en sumar báru innar handlaugar. Flosi fór að
engu óðara en hann væri heima. Bolöx lá í pallshorninu. Ásgrímur þreif hana
tveim höndum og hljóp upp á pallsstokkinn og hjó til höfuðs Flosa. Glúmur
Hildisson gat séð tilræðið og hljóp upp þegar og gat tekið öxina fyrir
framan hendur Ásgrími og sneri þegar egginni að Ásgrími því að Glúmur var
rammur að afli. Þá hljópu upp miklu fleiri menn og vildu ráða á Ásgrím en
Flosi kvað engan mann skyldu Ásgrími mein gera "því að vér höfum gert honum
ofraun en hann gerði það eina að er hann átti og sýndi hann það að hann var
ofurhugi."

Flosi mælti til Ásgríms: "Hér munum vér nú skiljast heilir og finnast á
þingi og taka þar til óspilltra mála."

"Svo mun vera," segir Ásgrímur, "og mundi eg það vilja, um það er þessu
þingi er lokið, að þér færuð lægra."

Flosi svaraði engu. Gengu þeir þá út og stigu á hesta sína og riðu í braut.

Þeir riðu þar til er þeir komu til Laugarvatns og voru þar um nóttina. En um
morguninn riðu þeir fram á Beitivöllu og áðu þar. Þar riðu að þeim flokkar
margir. Var þar Hallur af Síðu og allir Austfirðingar. Flosi fagnaði þeim
allvel og sagði þeim frá ferðum sínum og viðskiptum þeirra Ásgríms. Margir
lofuðu þetta og sögðu slíkt rösklega gert vera.

Þá mælti Hallur: "Þetta líst mér annan veg en yður því að þetta þykir mér
óviturlegt bragð. Mundu þeir þó muna harmsakar sínar þó að þeir væru eigi af
nýju á minntir en þeim mönnum allvant um er svo leita annarra manna
þunglega."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa