"Mig dreymdi það," segir Flosi, "að eg þóttist staddur að Lómagnúpi og ganga
út og sjá upp til gnúpsins. Og opnaðist hann og gekk maður út úr gnúpinum og
var í geithéðni og hafði járnstaf í hendi. Hann fór kallandi og kallaði á
menn mína, suma fyrr en suma síðar, og nefndi þá á nafn. Hann kallaði
fyrstan Grím hinn rauða frænda minn og Árna Kolsson. Þá þótti mér undarlega
við bregða. Mér þótti hann þá kalla Eyjólf Bölverksson og Ljót son Halls af
Síðu og nokkura sex menn. Þá þagði hann stund nokkura. Síðan kallaði hann
fimm menn af voru liði og voru þar Sigfússynir, bræður þínir. Þá kallaði
hann aðra fimm menn og var þar Lambi og Móðólfur og Glúmur. Þá kallaði hann
þrjá menn. Síðast kallaði hann Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson. Eftir
það gekk hann að mér. Eg spurði hann tíðinda. Hann lést kunna að segja
tíðindin. Þá spurði eg hann að nafni en hann nefndist Járngrímur. Eg spurði
hvert hann skyldi fara. Hann kvaðst fara skyldu til alþingis. "Hvað skalt þú
þar gera?" sagði eg. Hann svaraði: "Fyrst skal eg ryðja kviðu en þá dóma en
þá vígvöll fyrir vegöndum." Síðan kvað hann þetta:

Höggorma mun hefjast

herði-Þundr á landi.

Sjá munu menn á moldu

margar heila borgir.

Nú vex blárra brodda

beystisullr í fjöllum.

Koma mun sumra seggja

sveita dögg á leggi.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa