Flosi mælti þá til sinna manna: "Nú höfum vér fengið mikinn mannskaða. Megum
vér nú og vita er þetta hefir að borist hvert heillaleysi vér höfum. Er það
nú mitt ráð að vér ríðum á Þríhyrningshálsa. Megum vér þaðan sjá mannareiðir
um allt héraðið því að þeir munu nú hafa sem mestan liðssafnað og munu þeir
ætla að vér höfum riðið austur til Fljótshlíðar af Þríhyrningshálsum. Og
munu þeir þá ætla að vér ríðum austur á fjall og svo austur til héraða. Mun
þangað eftir ríða eftir mestur hluti liðsins en sumir munu ríða hið fremra
austur til Seljalandsmúla og mun þeim þó þykja þangað vor minni von. En eg
mun nú gera ráð fyrir oss og er það mitt ráð að vér ríðum upp í fjallið
Þríhyrning og bíðum þar til þess er þrjár sólir eru af himni."

Þeir gera nú svo að þeir ríða upp í fjallið og í dal einn er síðan er
kallaður Flosadalur. Sjá þeir nú þaðan allra manna ferðir um héraðið.


131. kafli

Nú er að segja frá Kára að hann fór úr gróf þeirri er hann hafði hvílt sig
og þar til er hann mætti Bárði og fóru svo orð með þeim sem Geirmundur hafði
sagt. Reið Kári þaðan til Marðar Valgarðssonar og sagði honum tíðindin. Hann
harmaði mjög. Kári kvað þá annað karlmannlegra en gráta þá dauða og bað hann
heldur safna liði og koma öllu til Holtsvaðs.

Síðan reið Kári í Þjórsárdal til Hjalta Skeggjasonar. Og þá er hann kom upp
með Þjórsá sér hann mann ríða eftir sér hvatlega. Kári beið mannsins og
kennir að þar var Ingjaldur frá Keldum. Hann sér að hann var alblóðugur um
lærið. Kári spurði Ingjald hver hann hefði særðan en hann sagði.

"Hvar fundust þið?" segir Kári.

"Við Rangá," segir Ingjaldur, "og skaut hann yfir ána til mín."

"Gerðir þú nokkuð í móti?" segir Kári.

"Aftur skaut eg spjótinu," segir Ingjaldur, "og sögðu þeir að maður yrði
fyrir og væri sá þegar dauður."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa