Ketill mælti: "Mikill harmur er að oss kveðinn er vér skulum svo mikla ógæfu
saman eiga."

Skarphéðinn hafði séð er faðir hans hafði niður lagst og hversu hann hafði
um sig búið.

Hann mælti þá: "Snemma fer faðir vor í rekkju og er það sem von er. Hann er
maður gamall."

Þá tóku þeir Skarphéðinn og Kári og Grímur brandana jafnskjótt sem ofan
duttu og skutu út á þá og gekk því um hríð. Þá skutu þeir spjótum inn að
þeim en þeir tóku öll á lofti og sendu út aftur.

Flosi bað þá hætta að skjóta "því að oss munu öll vopnaskipti þungt ganga
við þá. Megið þér nú vel bíða þess er eldurinn vinnur þá."

Þeir gera nú svo. Þá féllu ofan stórviðirnir úr ræfrinu.

Skarphéðinn mælti þá: "Nú mun faðir minn dauður vera og hefir hvorki heyrt
til hans styn né hósta."

Þeir gengu þá í skálaendann. Þar var fallið ofan þvertréið og var brunnið
mjög í miðju.

Kári mælti til Skarphéðins: "Hlaup þú hér út og mun eg beina að mér þér en
eg mun hlaupa þegar eftir og munum við þá báðir í braut komast ef við
breytum svo því að hingað leggur allan reykinn."

Skarphéðinn mælti: "Þú skalt hlaupa fyrri en eg mun þegar á hæla þér."

"Ekki er það ráð," segir Kári, "því að eg má vel komast annars staðar út þó
að hér gangi eigi."

"Eigi vil eg það," segir Skarphéðinn, "hlaup þú út fyrri en eg mun þegar
eftir."

Kári mælti: "Það er hverjum manni boðið að leita sér lífs meðan kostur er og
skal eg og svo gera. En þó mun nú sá skilnaður með okkur verða að við munum
aldrei sjást síðan því að ef eg hleyp út úr eldinum þá mun eg eigi hafa skap
til að hlaupa inn aftur í eldinn til þín og mun þá sína leið fara hvor
okkar."

"Það hlægir mig," segir Skarphéðinn, "ef þú kemst í braut mágur að þú munt
hefna vor."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa