Flosi gekk þá að dyrum og mælti að Njáll skyldi ganga til máls við hann og
svo Bergþóra. Þau gerðu svo.

Flosi mælti: "Útgöngu vil eg bjóða þér Njáll bóndi því að þú brennur
ómaklegur inni."

Njáll mælti: "Eigi vil eg út ganga því eg er maður gamall og er eg lítt til
búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm."

Flosi mælti þá til Bergþóru: "Gakk þú út húsfreyja því að eg vil þig fyrir
engan mun inni brenna."

Bergþóra mælti: "Eg var ung gefin Njáli og hefi eg því heitið honum að eitt
skyldi ganga yfir okkur bæði."

Síðan gengu þau inn bæði.

Bergþóra mælti: "Hvað skulum við nú til ráða taka?"

"Ganga munum við til hvílu okkarrar," segir Njáll, "og leggjast niður, hefi
eg lengi værugjarn verið."

Hún mælti þá við sveininn Þórð Kárason: "Þig skal bera út og skalt þú eigi
inni brenna."

"Hinu hefir þú mér heitið amma," segir sveinninn, "að við skyldum aldrei
skilja meðan eg vildi hjá þér vera. En mér þykir miklu betra að deyja með
ykkur Njáli en lifa eftir."

Hún bar þá sveininn til hvílunnar.

Njáll mælti við bryta sinn: "Nú skalt þú sjá hvar við leggjumst niður og
hversu eg bý um okkur því að eg ætla héðan hvergi að hrærast hvort sem mér
angrar reykur eða bruni. Mátt þú nú nær geta hvar beina okkarra er að
leita."

Hann sagði að svo skyldi vera. Þar hafði slátrað verið uxa einum og lá þar
húðin. Njáll mælti við brytann að hann skyldi breiða yfir þau húðina og hann
hét því. Þau leggjast nú niður bæði í rúmið og leggja sveininn í millum sín.
Þá signdu þau sig og sveininn og fálu önd sína guði á hendi og mæltu það
síðast svo að menn heyrðu. Þá tók brytinn húðina og breiddi yfir þau og gekk
út síðan. Ketill úr Mörk tók í mót honum og kippti honum út. Hann spurði
vandlega að Njáli mági sínum en brytinn sagði allt hið sanna.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa