Kári mælti: "Lítt dró enn undan við þig Skarphéðinn og ert þú vor
fræknastur."

"Eigi veit eg það víst," segir Skarphéðinn og brá við grönum og glotti að.

Þeir Kári og Grímur og Helgi lögðu út mörgum spjótum og særðu marga menn en
þeir Flosi gátu ekki að gert.

Flosi mælti: "Vér höfum fengið mikinn skaða á mönnum vorum. Eru margir sárir
en sá veginn er vér mundum síst til kjósa. Nú er það séð að vér fáum þá
aldrei með vopnum sótta. Er sá nú margur er eigi gengur jafnskörulega að sem
létu en þó eggjuðu mest. Mæli eg þetta mest til Grana Gunnarssonar og
Gunnars Lambasonar er sér létu verst eira. En þó munum vér nú verða að gera
annað ráð fyrir oss. Eru nú tveir kostir til og er hvorgi góður. Sá annar að
hverfa frá og er það vor bani, hinn annar að bera að eld og brenna þá inni
og er það stór ábyrgðarhlutur fyrir guði er vér erum menn kristnir sjálfir.
En þó munum vér það bragðs taka."

129. kafli

Þeir tóku nú eld og gerðu bál mikið fyrir dyrunum.

Þá mælti Skarphéðinn: "Eld kveikið þér nú sveinar eða hvort skal nú búa til
seyðis?"

Grani Gunnarsson svaraði: "Svo skal það vera og skalt þú eigi þurfa heitara
að baka."

Skarphéðinn mælti: "Því launar þú mér sem þú ert maður til er eg hefndi
föður þíns og virðir það meira er þér er óskyldara."

Þá báru konur sýru í eldinn og slökktu niður fyrir þeim. Sumar báru vatn eða
hland.

Kolur Þorsteinsson mælti til Flosa: "Ráð kemur mér í hug. Eg hefi séð loft í
skálanum á þvertrjám og skulum vér þar inn bera eldinn og kveikja við
arfasátu þá er hér stendur fyrir ofan húsin."

Síðan tóku þeir arfasátuna og báru þar inn eldinn. Fundu þeir eigi fyrr, er
inni voru, en logaði ofan allur skálinn. Gerðu þeir Flosi þá stór bál fyrir
öllum dyrum. Tók þá kvennaliðið illa að þola það er inni var.

Njáll mælti til þeirra: "Verðið vel við og mælið eigi æðru því að él eitt
mun vera og skyldi langt til annars slíks. Trúið þér og því að guð er
miskunnsamur og mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa