Kári svaraði: "Ekki skal eg austur ríða því að eitt skal ganga yfir mig og
sonu þína."

Njáll þakkaði honum og kvað slíks að honum von. Þar var jafnan nær þrem
tigum vígra karla með húskörlum.

Það var einu hverju sinni að Hróðný Höskuldsdóttir, móðir Höskulds
Njálssonar, kom til Keldna. Ingjaldur bróðir hennar fagnaði henni vel. Hún
tók ekki kveðju hans en bað hann þó ganga út með sér. Ingjaldur gerði svo að
hann gekk út með henni og gengu úr garði bæði saman. Síðan þreif hún til
hans og settust þau niður bæði.

Hróðný mælti: "Hvort er það satt að þú hefir svarið eið að fara að Njáli og
drepa hann og sonu hans?"

Hann svaraði: "Satt er það."

"Allmikill níðingur ert þú," segir hún, "þar sem Njáll hefir þrisvar leyst
þig úr skógi."

"Svo er nú þó komið," segir Ingjaldur, "að líf mitt liggur við ef eg geri
eigi þetta."

"Eigi mun það," segir hún, "lifa munt þú allt að einu og heita góður maður
ef þú svíkur eigi þann er þú átt bestur að vera."

Hún tók þá línhúfu úr pússi sínu alblóðga og raufótta og mælti: "Þessa húfu
hafði Höskuldur Njálsson og systurson þinn á höfði sér þá er þeir vógu hann.
Þykir mér þér því verr fara að veita þeim er þaðan standa að."

Ingjaldur svarar: "Svo mun nú og fara að eg mun eigi vera í móti Njáli hvað
sem á bak kemur. En þó veit eg að þeir munu að mér snúa vandræðum."

Hróðný mælti: "Þá mátt þú nú mikið lið veita Njáli og sonum hans ef þú segir
honum þessa ráðagerð alla."

"Það mun eg eigi gera," segir Ingjaldur, "því að þá er eg hvers manns
níðingur ef eg segi það er þeir trúðu mér til. En það er karlmannlegt bragð
að skiljast við þetta mál þar sem eg veit vísrar hefndar von. En seg það
Njáli og sonum hans að þeir séu varir um sig þetta sumar allt því að það er
þeim heilræði og hafi margt manna."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa