Hallur mælti: "Þá vil eg að þú sættist skjótt og látir góða menn gera um og
kaupir þú þér svo vináttu hinna bestu manna."

Flosi mælti: "Það vil eg yður kunnigt gera að eg vil gera fyrir orð Halls
mágs míns og annarra hinna bestu drengja að hér geri um sex menn af hvorra
hendi löglega til nefndir. Þykir mér Njáll maklegur vera að eg unni honum
þessa."

Njáll þakkaði honum og þeim öllum og aðrir þeir er hjá voru og kváðu Flosa
vel fara.

Flosi mælti: "Nú vil eg nefna mína gerðarmenn. Nefni eg fyrstan Hall mág
minn og Össur frá Breiðá, Surt Ásbjarnarson úr Kirkjubæ, Móðólf Ketilsson" -
hann bjó þá í Ásum - "Hafur hinn spaka og Runólf úr Dal og mun það einmælt
að þessir séu best til fallnir af öllum mínum mönnum."

Bað hann nú Njál nefna sína gerðarmenn.

Njáll stóð þá upp og mælti: "Til þess nefni eg fyrstan Ásgrím
Elliða-Grímsson og Hjalta Skeggjason, Gissur hvíta og Einar Þveræing, Snorra
goða og Guðmund hinn ríka."

Síðan tókust þeir í hendur, Njáll og Flosi og Sigfússynir, og handsalaði
Njáll fyrir alla sonu sína og Kára mág sinn það sem þessir tólf menn dæmdu.
Og mátti svo að kveða að allur þingheimur yrði þessu feginn. Voru þá sendir
menn eftir Snorra og Guðmundi því að þeir voru í búðum sínum. Var þá mælt að
dómendur skyldu sitja í lögréttu en allir aðrir gengju í braut.


123. kafli

Snorri goði mælti svo: "Nú erum vér hér tólf dómendur er málum þessum er til
skotið. Vil eg nú biðja yður alla að vér höfum enga trega í málum þessum svo
að þeir megi eigi sáttir verða."

Guðmundur mælti: "Viljið þér nokkuð héraðssektir gera eða utanferðir?"

"Engar," segir Snorri, "því að það hefir oft eigi efnst og hafa menn fyrir
það drepnir verið og orðið ósáttir. En gera vil eg fésætt svo mikla að engi
maður hafi dýrri verið hér á landi en Höskuldur."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa