Flosi mælti: "Eigi er ráðið að bæði sé að vér kjósum og deilum."

Grani mælti: "Það var mér þá í hug er þeir drápu Þráinn á Markarfljóti en
síðan Höskuld son hans að eg mundi aldrei sættast við þá heilum sáttum því
að eg vildi vera þar gjarna er þeir væru allir drepnir."

Flosi mælti: "Setið hefir þú svo nær að þú mættir hafa hefnt þessa ef þú
hefðir haft til þrek og karlmennsku. Þykir mér sem þess biðjir þú nú og
margur annarra er mundir mikið fé til gefa er stundir líða að þú hefðir eigi
orðið við staddur. Sé eg það gjörla þó að oss veitti það að vilja að vér
dræpum Njál eða sonu hans, þá eru þeir svo mikils háttar menn og stórættaðir
að þar mun svo mikið eftirmál verða að vér munum fyrir margs manns kné ganga
verða og biðja oss liðs áður vér komum oss í sætt og úr þessum vanda. Megið
þér og svo til ætla að þeir munu margir snauðir er áður eiga stórfé en sumir
munu láta bæði féið og lífið."

Mörður Valgarðsson reið til fundar við Flosa og kvaðst ríða vilja til þings
með honum með öllu liði sínu. Flosi tók því vel og hóf bónorð við hann að
hann skyldi gifta Rannveigu dóttur sína Starkaði er bjó að Stafafelli,
bróðursyni Flosa. Gekk Flosa það til að hann þóttist svo ráða undir sig
trúnað hans og fjölmenni. Mörður tók vænlega á og veik undir Gissur hinn
hvíta og bað tala um á þingi. Mörður átti Þorkötlu dóttur Gissurar hvíta.
Þeir Mörður og Flosi riðu báðir saman til þings og töluðu alla daga.


118. kafli

Njáll mælti til Skarphéðins: "Hverja ráðagerð hafið þér nú fyrir yður bræður
og Kári?"

Skarphéðinn mælti: "Lítt rekjum vér drauma til flestra hluta. En þér til að
segja þá munum vér ríða í Tungu til Ásgríms Elliða-Grímssonar og þaðan til
þings. En hvað ætlar þú um ferð þína faðir?"
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa