Flosi sendi orð Ingjaldi að hann kæmi til móts við hann. Ingjaldur fór þegar
við hinn fimmtánda mann. Þeir voru allir heimamenn hans. Ingjaldur var
mikill maður og styrkur. Fálátur var hann jafnan heima og hinn hraustasti
karlmaður og fédrengur góður við vini sína.

Flosi fagnaði Ingjaldi vel og mælti til hans: "Mikill vandi er kominn að
hendi oss og er nú vant úr að ráða. Bið eg þig þess mágur að þú skiljist
eigi við mitt mál fyrr en yfir lýkur vandræði þessi."

Ingjaldur mælti: "Við vant er eg um kominn fyrir tengdar sekir við Njál og
sonu hans og annarra stórra hluta er hér hvarfa í milli."

Flosi mælti: "Það ætlaði eg þá er eg gifti þér bróðurdóttur mína að þú hétir
mér því að veita mér að hverju máli."

"Það er og líkast," segir Ingjaldur, "að eg geri svo en þó vil eg nú heim
ríða fyrst og þaðan til þings."


117. kafli

Sigfússynir spurðu að Flosi var við Holtsvað og riðu þangað til móts við
hann og var þar Ketill úr Mörk og Lambi bróðir hans, Þorkell og Mörður og
Sigmundur Sigfússynir. Þar var og Lambi Sigurðarson og Gunnar Lambason og
Grani Gunnarsson, Vébrandur Hámundarson. Flosi stóð uppi í móti og fagnaði
þeim öllum blíðlega.

Þeir gengu fram að ánni. Flosi hafði af þeim sannar sögur og skilur þá
hvergi á og Runólf í Dal.

Flosi mælti til Ketils úr Mörk: "Þig kveð eg að þessu. Hversu harðsnúinn ert
þú á þetta mál eða aðrir Sigfússynir?"

Ketill mælti: "Það vildi eg að sættir yrðu með oss. En þó hefi eg svarið
eiða að skiljast eigi við þessi mál fyrr en yfir lýkur með nokkuru móti og
leggja líf á."

Flosi mælti: "Drengur ert þú mikill og er slíkum mönnum allvel farið."

Þeir tóku báðir senn til orða Grani Gunnarsson og Gunnar Lambason: "Sektir
viljum vér að fram komi og mannráð."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa