Eiríkur taldist heldur undan, kveðst þá vera hniginn í aldur og kveðst minna
mega við vosi öllu en var. Leifur kveður hann enn mundu mestri heill stýra
af þeim frændum. Og þetta lét Eiríkur eftir Leifi og ríður heiman þá er þeir
eru að því búnir og var þá skammt að fara til skipsins. Drepur hesturinn
fæti, sá er Eiríkur reið, og féll hann af baki og lestist fótur hans.

Þá mælti Eiríkur "Ekki mun mér ætlað að finna lönd fleiri en þetta er nú
byggjum vér. Munum vér nú ekki lengur fara allir samt."

Fór Eiríkur heim í Brattahlíð en Leifur réðst til skips og félagar hans með
honum, hálfur fjóði tugur manna. Þar var suðurmaður einn í ferð er Tyrkir
hét.

Nú bjuggu þeir skip sitt og sigldu í haf þá er þeir voru búnir og fundu þá
það land fyrst er þeir Bjarni fundu síðast. Þar sigla þeir að landi og
köstuðu akkerum og skutu báti og fóru á land og sáu þar eigi gras. Jöklar
miklir voru allt hið efra en sem ein hella væri allt til jöklanna frá sjónum
og sýndist þeim það land vera gæðalaust.

Þá mælti Leifur: "Eigi er oss nú það orðið um þetta land sem Bjarna að vér
höfum eigi komið á landið. Nú mun eg gefa nafn landinu og kalla Helluland."

Síðan fóru þeir til skips. Eftir þetta sigla þeir í haf og fundu land annað,
sigla enn að landi og kasta akkerum, skjóta síðan báti og ganga á landið.
Það land var slétt og skógi vaxið og sandar hvítir víða þar sem þeir fóru og
ósæbratt.

Þá mælti Leifur: "Af kostum skal þessu landi nafn gefa og kalla Markland."

Fóru síðan ofan aftur til skips sem fljótast.

Nú sigla þeir þaðan í haf landnyrðingsveður og voru úti tvö dægur áður þeir
sáu land og sigldu að landi og komu að ey einni er lá norður af landinu og
gengu þar upp og sáust um í góðu veðri og fundu það að dögg var á grasinu og
varð þeim það fyrir að þeir tóku höndum sínum í döggina og brugðu í munn sér
og þóttust ekki jafnsætt kennt hafa sem það var.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa