Einu hverju sinni var það að Mörður kom til Bergþórshvols.

Hann mælti til þeirra Njálssona: "Veislu hefi eg þar stofnaða og ætla eg að
drekka erfi eftir föður minn. En til þeirrar veislu vil eg bjóða yður
Njálssonum og Kára og því heita að þér skuluð eigi gjafalaust í braut fara."

Þeir hétu að fara. Fer Mörður nú heim og býr veisluna. Hann bauð þangað
mörgum bóndum og var veisla sú fjölmenn. Koma þangað Njálssynir og Kári.
Mörður gaf Skarphéðni gullsylgju mikla en Kára silfurbelti en Grími og Helga
góðar gjafar.

Þeir koma heim og hrósa gjöfum þessum og sýna Njáli.

Hann segir að þeir mundu fullu keypt hafa "og hyggið að því að þér launið
eigi því sem hann mundi vilja."


109. kafli

Litlu síðar höfðu þeir heimboð með sér, Höskuldur og Njálssynir, og buðu
þeir fyrri Höskuldi. Skarphéðinn átti hest brúnan, fjögurra vetra gamlan,
bæði mikinn og sjálegan. Hann var graður og hafði ekki verið fram leiddur.
Þann hest gaf Skarphéðinn Höskuldi og með hross tvö. Allir gáfu þeir
Höskuldi gjafar og mæltu til vináttu.

Síðan bauð Höskuldur þeim heim í Ossabæ. Hann hafði þar marga fyrirboðsmenn
og mikið fjölmenni. Hann hafði látið taka ofan skála sinn en hann átti
útibúr þrjú og voru þau búin mönnum að sofa í. Þeir koma þar allir er hann
hafði boðið. Veislan fór allvel fram. Og er menn skyldu heim fara valdi
Höskuldur mönnum góðar gjafar og fór á leið með Njálssonum. Sigfússynir
fylgdu honum og fjölmennið allt. Mæltu hvorir að engir skyldu í millum
þeirra komast.

Nokkuru síðar kom Mörður í Ossabæ og kallaði Höskuld til máls við sig. Þeir
gengu á tal.

Mörður mælti: "Mikill verður mannamunur með yður Njálssonum. Þú gafst þeim
góðar gjafar en þeir gáfu þér gjafar með miklu spotti."