"Það er upphaf laga vorra," sagði hann, "að menn skulu allir vera kristnir
hér á landi og trúa á einn guð, föður og son og anda helgan, en láta af
allri skurðgoðavillu, bera eigi út börn og eta eigi hrossakjöt. Skal
fjörbaugssök á vera ef víst verður en ef leynilega er með farið þá skal vera
vítislaust."

En þessi heiðni var af tekin öll á fárra vetra fresti að eigi skyldi þetta
heldur gera leynilega en opinberlega. Hann sagði þá um drottinsdagahald og
föstudaga, jóladaga og páskadaga og allra hinna stærstu hátíða.

Þóttust heiðnir menn mjög sviknir vera en þó var þá í lög leidd trúan og
allir menn kristnir gervir hér á landi.

Fara menn við það heim af þingi.


106. kafli

Sá atburður varð þrem vetrum síðar á Þingskálaþingi að Ámundi hinn blindi
var þar, son Höskulds Njálssonar. Hann lét leiða sig búða í meðal. Hann kom
í búð þá er Lýtingur var inni af Sámsstöðum. Hann lætur leiða sig inn í
búðina og þar fyrir sem Lýtingur sat.

Hann mælti: "Er hér Lýtingur af Sámsstöðum?"

"Já," segir Lýtingur, "eða hvað vilt þú mér?"

"Eg vil vita," segir Ámundi, "hverju þú vilt bæta mér föður minn. Eg er
laungetinn og hefi eg við engum bótum tekið."

"Bætt hefi eg föður þinn fullum bótum," segir Lýtingur, "og tók við
föðurfaðir þinn og föðurbræður en bræður mínir voru ógildir. Og varð bæði að
eg hafði illa til gert enda kom eg allhart niður."

"Ekki spyr eg að því," segir Ámundi, "að þú hefir bætt þeim. Veit eg að þér
eruð sáttir. Og spyr eg að því hverju þú vilt mér bæta."

"Alls engu," segir Lýtingur.

"Eigi skil eg," segir Ámundi, "að það muni rétt fyrir guði svo nær hjarta
sem þú hefir mér höggvið. Enda kann eg að segja þér ef eg væri heileygur
báðum augum að hafa skyldi eg annaðhvort fyrir föður minn fébætur eða
mannhefndir enda skipti guð með okkur."