Það mæltu margir menn svo að Njáll heyrði að slíkt væru mikil firn að hafna
fornum sið og átrúnaði.

Njáll sagði þá: "Svo líst mér sem hinn nýi átrúnaður muni vera miklu betri
og sá muni sæll er þann fær heldur. Og ef þeir menn koma út hingað er þann
sið bjóða þá skal eg það vel flytja."

Hann mælti það oft. Hann fór oft frá öðrum mönnum einn saman og þuldi.

Þetta hið sama haust kom skip út austur í Fjörðum í Berufirði þar sem heitir
Gautavík. Hét Þangbrandur stýrimaður. Hann var son Vilbaldús greifa úr
Saxlandi. Þangbrandur var sendur út hingað af Ólafi konungi Tryggvasyni að
bjóða trú rétta. Með honum fór sá maður íslenskur er Guðleifur hét. Hann var
son Ara Mássonar, Atlasonar, Úlfssonar hins skjálga, Högnasonar hins hvíta,
Ótryggssonar, Óblauðssonar, Hjörleifssonar hins kvensama Hörðalandskonungs.
Guðleifur var vígamaður mikill og manna hraustastur og harðger í öllu.

Bræður tveir bjuggu á Berunesi. Hét annar Þorleifur en annar Ketill. Þeir
voru Hólmsteinssynir Össurarsonar hins breiðdælska. Þeir lögðu til fund og
bönnuðu mönnum að eiga kaup við þessa menn.

Þetta spurði Hallur af Síðu. Hann bjó að Þvottá í Álftafirði. Hann reið til
skips við þrjá tigu manna.

Hann fer þegar á fund Þangbrands og mælti til hans: "Hvort ganga ekki mjög
kaupin?"

Hann sagði að svo var.

"Nú vil eg segja þér mitt erindi," segir Hallur, "að eg vil bjóða yður öllum
heim til mín og hætta á hvort eg geti kaup fyrir yður."

Þangbrandur þakkaði honum og fór til Þvottár.

Um haustið var það að Þangbrandur var úti einn morgun snemma og lét skjóta
sér tjaldi og söng messu í tjaldinu og hafði mikið við því að hátíð var
mikil.

Hallur mælti til Þangbrands: "Í hverja minning heldur þú þennan dag?"

"Mikael engill á daginn," segir hann.

"Hver rök fylgja engli þeim?" segir Hallur.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa