Síðan gengu þeir þangað sem Skarphéðinn hafði heyrt mannamálið og sjá hvar
þeir Lýtingur eru við læk einn. Skarphéðinn hleypur þegar yfir lækinn og í
melbakkann öðrum megin. Þar stóð Hallgrímur á uppi og þeir bræður.
Skarphéðinn höggur á lærið Hallgrími svo að þegar tók undan fótinn en þrífur
Hallkel annarri hendi. Lýtingur lagði til Skarphéðins. Helgi kom þá að og
brá við skildinum og kom þar í lagið. Lýtingur tók upp stein og laust
Skarphéðin og varð Hallkell laus. Hallkell hleypur þá upp á melbakkann og
kemst eigi á upp annan veg en hann skýtur niður knjánum. Skarphéðinn slæmir
til hans öxinni Rimmugýgi og höggur í sundur í honum hrygginn. Lýtingur snýr
nú undan en þeir Grímur og Helgi eftir og kemur sínu sári á hann hvor
þeirra. Lýtingur kemst út á ána undan þeim og svo til hrossa og hleypir til
þess er hann kemur í Ossabæ. Höskuldur var heima. Lýtingur finnur hann þegar
og segir honum verkin.

"Slíks var þér von," segir Höskuldur, "þú fórst rasandi mjög. Mun hér
sannast það sem mælt er að skamma stund verður hönd höggi fegin. Þykir mér
sem þér þyki nú ísjávert hvort þú munt fá haldið þig fyrir Njálssonum."

"Svo er víst," segir Lýtingur, "að eg komst nauðulega undan en þó vildi eg
nú að þú kæmir mér í sætt við Njál og sonu hans og mætti eg halda búi mínu."

"Svo skal vera," segir Höskuldur.

Síðan lét Höskuldur söðla hest sinn og reið til Bergþórshvols við hinn sétta
mann. Þá voru synir Njáls heima komnir og höfðu lagst til svefns. Höskuldur
fór þegar að finna Njál og gengu þeir á tal.

Höskuldur mælti til Njáls: "Hingað er eg kominn að biðja fyrir Lýtingi mági
mínum. Hefir hann stórt af gert við yður, rofið sætt og drepið son þinn."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa