Síðan kvaddi hann til ferðar með sér bræður sína tvo og húskarla þrjá. Þeir
fóru á leið fyrir Höskuld og sátu fyrir honum norður frá garði í gróf
nokkurri og biðu þar til þess er var miður aftan. Þá reið Höskuldur að þeim.
Þeir spretta þá upp allir með vopnum og sækja að honum. Höskuldur varðist
svo vel að þeir fá lengi eigi sóttan hann. En þar kom um síðir að hann særði
Lýting á hendi en drap heimamenn hans tvo og féll síðan. Þeir særðu Höskuld
sextán sárum en eigi hjuggu þeir höfuð af honum. Þeir fóru í skógana fyrir
austan Rangá og fálu sig þar.

Þetta kveld hið sama hafði smalamaður Hróðnýjar fundið Höskuld dauðan og fór
heim og sagði Hróðnýju víg sonar síns.

Hún mælti: "Ekki mun hann dauður vera eða var af höfuðið?"

"Eigi var það," segir hann.

"Vita mun eg ef eg sé," segir hún, "og tak þú hest minn og akfæri."

Hann gerði svo og bjó um með öllu og síðan fóru þau þangað sem Höskuldur lá.

Hún leit á sárin og mælti: "Svo er sem mig varði að hann mundi ekki dauður
með öllu og mun Njáll græða stærri sár."

Síðan tóku þau og lögðu hann í vagarnar og óku til Bergþórshvols og báru þar
inn í sauðahús og láta hann sitja upp við vegginn. Síðan gengu þau heim bæði
og drápu á dyr og gekk húskarl einn til dyra. Hún snarar þegar inn hjá honum
og fer þar til er hún kemur að hvílu Njáls. Hún spurði hvort Njáll vekti.
Hann kveðst sofið hafa þar til "en nú er eg vaknaður. Eða hví ert þú hér
komin svo snemma?"

Hróðný mælti: "Statt þú upp úr binginum frá elju minni og gakk út með mér og
svo hún og synir þínir."

Þau stóðu upp og gengu út.

Skarphéðinn mælti: "Tökum vér vopn vor og höfum með oss."

Njáll lagði ekki til þess og hljópu þeir inn og gengu út vopnaðir. Fer
Hróðný fyrir til þess er þau koma að sauðahúsinu.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa