Síðan fóru þeir þangað og var þá jarl í brautu.

Þá fór Kári inn til Hlaða á fund jarls og færði honum skatta sína.

Jarl mælti: "Hefir þú tekið Njálssonu til þín?"

"Svo er víst," segir Kári.

"Vilt þú selja mér þá?" segir jarl.

"Það vil eg eigi," sagði Kári.

"Vilt þú sverja þess að þú vildir eigi að mér fara eftir?" segir jarl.

Þá mælti Eiríkur jarlsson: "Ekki er slíks að leita. Hefir Kári jafnan verið
vinur vor. Og skyldi eigi svo farið hafa ef eg hefði við verið. Njálssynir
skyldu öllu hafa haldið heilu en hinir skyldu hafa haft refsing er til höfðu
gert. Þætti mér nú sannlegra að gefa Njálssonum sæmilegar gjafar fyrir
hrakningar þær er þeir hafa haft og sárafar."

Jarl mælti: "Svo mundi vera víst en eigi veit eg hvort þeir munu taka vilja
sættir."

Þá mælti jarl við Kára að hann skyldi leita um sættir við þá Njálssonu.
Síðan ræddi Kári við Helga hvort hann vildi taka sæmdir af jarli.

Helgi svaraði: "Taka vil eg af syni hans, Eiríki, en eg vil ekki eiga um við
jarl."

Þá segir Kári Eiríki svör þeirra bræðra.

"Svo skal þá vera," segir Eiríkur, "að þeir skulu af mér taka sæmdina ef
þeim þykir það betra og segið þeim það að eg býð þeim til mín og skal faðir
minn ekki mein gera þeim."

Þetta þágu þeir og fóru til Eiríks og voru með honum þar til er Kári var
búinn vestur að sigla. Þá gerði Eiríkur Kára veislu og gaf honum góðar
gjafar og svo Njálssonum.

Síðan fóru þeir Kári vestur um haf á fund Sigurðar jarls og tók hann við
þeim allvel og voru með jarli um veturinn.

En um vorið bað Kári Njálssonu að þeir færu í hernað með honum en Grímur
kveðst það mundu gera ef hann vildi þá fara með þeim til Íslands. Kári hét
því. Fóru þeir þá með honum í hernað. Þeir herjuðu suður um Öngulseyjar og
allar Suðureyjar. Þá héldu þeir til Saltíris og gengu þar upp og börðust við
landsmenn og fengu þar fé mikið og fóru til skipa. Þaðan fóru þeir suður til
Bretlands og herjuðu þar. Þá héldu þeir til Manar. Þar mættu þeir Guðröði
konungi úr Mön og börðust þeir við hann og höfðu sigur og drápu Dungal son
konungs. Þar tóku þeir fé mikið. Þaðan héldu þeir norður til Kolu og fundu
þar Gilla jarl og tók hann við þeim vel og dvöldust þeir með honum nokkura
hríð. Jarl fór með þeim til Orkneyja á fund Sigurðar jarls. En um vorið
gifti Sigurður jarl Gilla jarli Nereiði systur sína. Fór hann þá í
Suðureyjar.