"Hvar?" sagði Sveinn son hans.

"Í seglinu," segir jarl, "er var heflað upp við rána."

Þá rann á byr og sigldi Þráinn út úr firðinum til hafs. Hann mælti þá þetta
er lengi hefir uppi verið haft síðan:

Látum geisa Gamminn,

gerrat Þráinn vægja.

En er jarl spurði orð Þráins þá mælti hann: "Eigi ber hér til óviska mín
heldur það

samband þeirra er þeim dregur báðum til bana."

Þráinn var skamma stund í hafi og kom til Íslands og fór heim til bús síns.
Hrappur fór

með Þráni og var með honum þau misseri en um vorið eftir fékk Þráinn honum
bú á

Hrappstöðum og bjó Hrappur þar. Hann var þó lengstum að Grjótá og þótti þar
öllu

spilla. Það mæltu sumir menn að vingott væri með þeim Hallgerði og hann
fífldi hana en sumir mæltu því í móti.

Þráinn fékk skipið Merði órækju frænda sínum. Sá Mörður vó Odd Halldórsson
austur í Gautavík í Berufirði.

Allir frændur Þráins héldu hann nú fyrir höfðingja.


89. kafli

Nú er þar til máls að taka er Hákon jarl missti Þráins. Hann mælti þá við
Svein son sinn:

"Tökum langskip fjögur og förum að Njálssonum og drepum þá því að þeir munu
vitað hafa með Þráni."

"Það er eigi gott ráð," segir Sveinn, "að snúa sökum á óvalda menn en láta
þann undan setja er sökina ber á baki."

"Eg skal þessu ráða," segir jarl.

Halda þeir nú eftir Njálssonum og leita þeirra og finna þá undir eyjunni.

Grímur sá fyrst skip jarlsins og mælti til Helga: "Herskip fara hér og kenni
eg að hér fer jarl og mun hann oss engan frið bjóða."

"Það er mælt," segir Helgi, "að hver sé vaskur er sig ver við hvern sem hann
á um. Skulum vér og verja oss."

Allir báðu hann fyrir sjá. Tóku þeir þá vopn sín.

Jarl kemur nú að og kallaði á þá og bað þá upp gefast. Helgi svarar að þeir
mundu verjast meðan þeir mættu. Jarl bauð öllum grið, þeim er eigi vildu
verja hann, en svo var Helgi vinsæll að allir vildu heldur deyja með honum.
Jarl sækir nú að og hans menn en hinir verjast vel og voru þeir Njálssynir
þar jafnan sem mest var raunin. Jarl bauð þeim oft griðin. Þeir svöruðu
jafnan hinu sama og kváðust aldrei upp skyldu gefast. Þá sótti að þeim fast
Áslákur úr Langeyju, lendur maður jarls, og komst upp á skipið þremur
sinnum.