Ólafur pái sendi Gunnari mann og bað hann fara vestur þangað og Hallgerði en
fá bú í hendur móður sinni og Högna syni sínum. Gunnari þótti það fýsilegt
fyrst og játaði því en þá er að kom þá vildi hann eigi.

En á þingi um sumarið lýsa þeir Gissur sekt Gunnars að Lögbergi. En áður
þinglausnir voru stefndi Gissur öllum óvinum Gunnars í Almannagjá: Starkaði
undan Þríhyrningi og Þorgeiri syni hans, Merði og Valgarði hinum grá, Geir
goða og Hjalta Skeggjasyni, Þorbrandi og Ásbrandi Þorleikssonum, Eilífi og
Önundi syni hans, Önundi úr Tröllaskógi, Þorgrími austmanni úr Sandgili.

Gissur mælti: "Eg vil bjóða yður að vér förum að Gunnari í sumar og drepum
hann."

Hjalti mælti: "Því hét eg Gunnari hér á þingi þá er hann gerði mest fyrir
mín orð að eg skyldi aldrei vera í aðförum við hann og skal svo vera."

Síðan gekk Hjalti í braut en þeir réðu aðför við Gunnar er eftir voru og
höfðu handtak að og lögðu við sekt ef nokkur gengi úr. Mörður skyldi halda
njósnum til nær best gæfi færi á Gunnari og voru þeir fjórir tigir manna í
þessu sambandi. Þótti þeim sér nú lítið mundu fyrir verða að veiða Gunnar er
í brautu var Kolskeggur og Þráinn og margir aðrir vinir Gunnars. Riðu menn
heim af þingi.

Njáll fór að finna Gunnar og sagði honum sekt hans og ráðna aðför við hann.

"Vel þykir mér þér fara," sagði Gunnar, "er þú gerir mig varan við."

"Nú vil eg," segir Njáll, "að Skarphéðinn fari til þín og Höskuldur sonur
minn og munu þeir leggja sitt líf við þitt líf."

"Eigi vil eg það," segir Gunnar, "að synir þínir séu drepnir fyrir mínar
sakar og átt þú annað að mér."

"Fyrir ekki mun það koma," sagði Njáll. "Þangað mun snúið vandræðum þá er þú
ert látinn sem synir mínir eru."

"Eigi er það ólíklegt," segir Gunnar, "en eigi vildi eg að það hlytist af
mér til. En þess vil eg biðja þig og yður feðga að þér sjáið á með Högna
syni mínum. En eg tala þar ekki til er Grani er því að hann gerir margt ekki
að mínu skapi."