13. kafli

Þá Bjarna Grímólfsson bar í Grænlandshaf og komu í maðksjá. Fundu þeir eigi
fyrr en skipið gerist maðksmogið undir þeim. Þá töluðu þeir um hvert ráð
þeir skyldu taka. Þeir höfðu eftirbát þann er bræddur var seltjöru. Það
segja menn að skelmaðkurinn smjúgi eigi það tré er seltjörunni er brætt. Var
það flestra manna sögn og tillaga að skipa mönnum bátinn svo sem hann tæki
upp. En er það var reynt þá tók báturinn eigi meir upp en helming manna.
Bjarni mælti þá að menn skyldu fara í bátinn og skyldi það fara að
hlutföllum en eigi að mannvirðingum. En hver þeirra manna vildi fara í
bátinn sem þar voru, þá mátti hann eigi við öllum taka. Fyrir því tóku þeir
þetta ráð að hluta menn í bátinn og af kaupskipinu. Hlutaðist þar svo til að
Bjarni hlaut að fara í bátinn og nær helmingur manna með honum. Þá gengu
þeir af skipinu og í bátinn er til þess höfðu hlotist.

Þá er menn voru komnir í bátinn mælti einn ungur maður íslenskur sá er verið
hafði förunautur Bjarna: "Ætlar þú Bjarni að skiljast hér við mig?"

Bjarni svarar: "Svo verður nú að vera."

Hann segir: "Svo með því að þú hést mér eigi því þá er eg fór með þér frá
Íslandi frá búi föður míns."

Bjarni segir: "Eigi sé eg hér þó annað ráð til eða hvað leggur þú hér til
ráðs?"

Hann segir: "Sé eg ráðið til að við skiptumst í rúmunum og farir þú hingað
en eg mun þangað."

Bjarni svarar: "Svo skal vera og það sé eg að þú vinnur gjarna til lífs og
þykir mikið fyrir að deyja."

Skiptust þeir þá í rúmunum. Gekk þessi maður í bátinn en Bjarni upp í skipið
og er það sögn manna að Bjarni létist þar í maðkahafinu og þeir menn sem í
skipinu voru með honum. En báturinn og þeir er þar voru á fóru leiðar sinnar
til þess er þeir tóku land og sögðu þessa sögu síðan.