Þeir þóttust nú sjá þótt þar væru landskostir góðir að þar mundi jafnan
ófriður og ótti á liggja af þeim er fyrir bjuggu.

Síðan bjuggust þeir á brottu og ætluðu til síns lands og sigldu norður fyrir
landið og fundu fimm Skrælingja í skinnhjúpum, sofnaða, nær sjó. Þeir höfðu
með sér stokka og í dýramerg, dreyra blandinn. Þóttust þeir Karlsefni það
skilja að þessir menn myndu hafa verið gervir brott af landinu. Þeir drápu
þá. Síðan fundu þeir Karlsefni nes eitt og á fjölda dýra. Var nesið að sjá
sem mykiskán væri af því að dýrin lágu þar um næturnar.

Nú koma þeir Karlsefni aftur í Straumsfjörð og voru þar fyrir alls gnóttir
þess er þeir þurftu að hafa.

Það er sumra manna sögn að þau Bjarni og Guðríður hafi þar eftir verið og
tíu tigir manna með þeim og hafi eigi farið lengra, en þeir Karlsefni og
Snorri hafi suður farið og fjórir tigir manna með þeim og hafi eigi lengur
verið í Hópi en vart tvo mánuði og hafi sama sumar aftur komið.

Karlsefni fór þá einu skipi að leita Þórhalls veiðimanns en annað liðið var
eftir og fóru þeir norður fyrir Kjalarnes og ber þá fyrir vestan fram og var
landið á bakborða þeim. Þar voru þá eyðimerkur einar allt að sjá fyrir þeim
og nær hvergi rjóður í. Og er þeir höfðu lengi farið fellur á af landi ofan
úr austri og í vestur. Þeir lögðu inn í árósinn og lágu við hinn syðra
bakkann.


12. kafli

Það var einn morgun er þeir Karlsefni sáu fyrir ofan rjóðrið flekk nokkurn
sem glitraði við þeim og æptu þeir á það. Það hrærðist og var það
einfætingur og skaust ofan á þann árbakkann sem þeir lágu við. Þorvaldur
Eiríksson rauða sat við stýri.

Þá mælti Þorvaldur: "Gott land höfum vér fengið."

Þá hleypur einfætingurinn á brott og norður aftur og skaut áður í smáþarma á
Þorvald. Hann dró út örina.

Þá mælti Þorvaldur: "Feitt er um ístruna."