En er sjá stund var liðin sjá þeir sunnan fara mikinn fjölda skipa
Skrælingja svo sem straumur stæði. Var þá veift trjánum öllum rangsælis og
ýla allir Skrælingjar hátt upp. Þá tóku þeir rauða skjöldu og báru í mót.

Gengu þeir þá saman og börðust. Varð þar skothríð hörð. Þeir höfðu og
valslöngur Skrælingjar.

Það sjá þeir Karlsefni og Snorri að þeir færðu upp á stöngum Skrælingjarnir
knött mikinn og blán að lit og fló upp á land yfir liðið og lét illilega við
þar er niður kom.

Við þetta sló ótta miklum yfir Karlsefni og á lið hans svo að þá fýsti
einskis annars en halda undan og upp með ánni því að þeim þótti lið
Skrælingja drífa að sér öllum megin og létta eigi fyrr en þeir koma til
hamra nokkurra. Veittu þeir þar viðtöku harða.

Freydís kom út og sá er þeir héldu undan. Hún kallaði: "Hví rennið þér undan
slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð
drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur
berjast en einnhver yðvar."

Þeir gáfu öngvan gaum hvað sem hún sagði. Freydís vildi fylgja þeim og varð
hún heldur sein því að hún var eigi heil. Gekk hún þá eftir þeim í skóginn
en Skrælingjar sækja að henni. Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand
Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún
tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún
tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og
hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og
lofa happ hennar.

Tveir menn féllu af Karlsefni en fjórir af Skrælingjum en þó urðu þeir
Karlsefni ofurliði bornir. Fara þeir nú til búða sinna og íhuga hvað
fjölmenni það var er að þeim sótti á landinu. Sýnist þeim nú að það eina mun
liðið hafa verið er á skipunum kom an annað liðið mun hafa verið
þversýningar.

Þeir Skrælingjar fundu og mann dauðan og lá öx hjá honum. Einn þeirra tók
upp öxina og höggur með tré og þá hver að öðrum og þótti þeim vera gersemi
og bíta vel. Síðan tók einn og hjó í stein og brotnaði öxin. Þótti honum þá
öngu nýt er eigi stóð við grjótinu og kastaði niður.