Hann var á skipi með þeim Þorvaldi því að honum var víða kunnigt í óbyggðum.
Þeir höfðu það skip er Þorbjörn hafði út þangað og réðust til ferðar með
þeim Karlsefni og voru þar flestir grænlenskir menn á. Á skipum þeirra voru
fjórir tigir manna annars hundraðs.

Sigldu þeir undan síðan til Vestribyggðar og til Bjarneyja. Sigldu þeir
þaðan undan Bjarneyjum norðan veður. Voru þeir úti tvö dægur. Þá fundu þeir
land og reru fyrir á bátum og könnuðu landið og fundu þar hellur margar og
svo stórar að tveir menn máttu vel spyrnast í iljar. Melrakkar voru þar
margir. Þeir gáfu nafn landinu og kölluð Helluland.

Þá sigldu þeir norðan veður tvö dægur og var þá land fyrir þeim og var á
skógur mikill og dýr mörg. Ey lá í landsuður undan landinu og fundu þeir þar
bjarndýr og kölluðu Bjarney en landið kölluðu þeir Markland. Þar er
skógurinn.

Þá er liðin voru tvö dægur sjá þeir land og þeir sigldu undir landið. Þar
var nes er þeir komu að. Þeir beittu með landinu og létu landið á
stjórnborða. Þar var öræfi og strandir langar og sandar. Fara þeir á bátum
til lands og fundu þar á nesinu kjöl af skipi og köllu þar Kjalarnes. Þeir
gáfu og nafn ströndunum og köllu Furðustrandir því að langt var með að
sigla. Þá gerðist vogskorið landið og héldu þeir skipunum að vogunum.

Það var þá er Leifur var með Ólafi konungi Tryggvasyni og hann bað hann boða
kristni á Grænlandi og þá gaf konungur honum tvo menn skoska. Hét
karlmaðurinn Haki en konan Hekja. Konungur bað Leif taka til þessara manna
ef hann þyrfti skjótleiks við því að þau voru dýrum skjótari. Þessa menn
fengu þeir Leifur og Eiríkur til fylgdar við Karlsefni.

En er þeir höfðu siglt fyrir Furðustrandir þá létu þeir hina skosku menn á
land og báðu þau hlaupa í suðurátt og leita landskosta og koma aftur áður
þrjú dægur væru liðin. Þau voru svo búin að þau höfðu það klæði er þau
kölluð kjafal. Það var svo gert að hötturinn var á upp og opið að hliðum og
engar ermar á og hneppt í milli fóta. Hélt þar saman hnappur og nesla en ber
voru annars staðar.

Þeir köstuðu akkerum og lágu þar þessa stund. Og er þrír dagar voru liðnir
hljópu þau af landi ofan og hafði annað þeirra í hendi vínber en annað
hveiti sjálfsáið. Sagði Karlsefni að þau þóttust fundið hafa landskosti
góða.