Our Next Part to translate - The beginning of the Part I wanted to see
Where we meet the Seeress
Thank you Grace for choosing this Saga
Patricia
 
 
 
 Þorbjörn selur lendur sínar og kaupir skip er stóð uppi í Hraunhafnarósi. Réðust til ferðar með honum þrír tigir manna. Var þar Ormur frá Arnarstapa og kona hans og þeir vinir Þorbjarnar er eigi vildu við hann skilja.

Síðan létu þeir í haf. Þá er þeir höfðu út látið var veður hagstætt en er þeir komu í haf tók af byri og fengu þeir mikil veður og fórst þeim ógreitt um sumarið. Því næst kom sótt í lið þeirra og andaðist Ormur og Halldís kona hans og helmingur þeirra. Sjó tók að stæra og fengu þeir vos mikið og vesöld á marga vega og tóku þó Herjólfsnes á Grænlandi við veturnætur sjálfar.

Sá maður bjó á Herjólfsnesi er Þorkell hét. Hann var nytjumaður og hinn besti bóndi. Hann tók við Þorbirni og öllum skipverjum hans um veturinn. Þorkell veitti þeim skörulega. Líkaði Þorbirni vel og öllum skipverjum hans.


4. kafli

Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.

Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona og var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.

Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferð. Og með því að Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búin góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsafiðri.

En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tuglamöttul blán og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattarskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.