Nú líður á sumarið til átta vikna. Þá mælti Gunnar við Kolskegg: "Bú þú ferð
þína því að nú skulum vér ríða til heimboðs í Tungu."

"Skal nú ekki orð gera Njálssonum?" sagði Kolskeggur.

"Ekki," sagði Gunnar, "eigi skulu þeir hljóta vandræði af mér."


61. kafli

Þeir ríða þrír saman, Gunnar og bræður hans. Gunnar hafði atgeirinn og
sverðið Ölvisnaut en Kolskeggur hafði saxið. Hjörtur hafði og alvæpni. Riðu
þeir nú í Tungu. Ásgrímur tók vel við þeim og voru þeir þar nokkura hríð. Þá
lýstu þeir yfir því að þeir ætluðu þá heim að fara. Ásgrímur gaf þeim góðar
gjafar og bauð að ríða með þeim austur. Gunnar kvað engis mundu við þurfa og
fór hann eigi.

Sigurður svínhöfði hét maður. Hann kom undir Þríhyrning. Hann bjó við
Þjórsá. Hann hafði heitið að halda njósn um ferðir Gunnars. Hann sagði þeim
nú til ferða hans og kvað ekki mundu verða vænna en svo "er hann er við hinn
þriðja mann."

"Hversu marga munum vér menn þurfa," segir Starkaður, "í fyrirsát?"

"Rýrt mun verða fyrir honum smámennið," segir Sigurður, "og eigi er ráð að
hafa færri en þrjá tigu manna."

"Hvar skulum vér fyrir sitja?" segir Starkaður.

"Við Knafahóla," segir Sigurður, "þar sér eigi fyrr en að er komið."

"Far þú í Sandgil," segir Starkaður, "og seg Agli að þeir búist þaðan
fimmtán en vér munum koma héðan aðrir fimmtán til Knafahóla."