Am sending early due to the storm here - - hoping not to lose electric
power, but who knows.
Grace

Síðan hlutuðu þeir og hlaut Geir goði að fara með sökina.

Litlu síðar riðu þeir vestan yfir ár og komu þar sem fundurinn hafði verið
við Rangá og grófu upp líkamina og nefndu votta að benjum. Síðan lýstu þeir
og kvöddu níu búa um málið. Þeim var sagt að Gunnar var heima við þrjá tigu
manna. Spurði þá Geir goði hvort Gissur vildi að ríða við hundrað manna.

"Eigi vil eg það," segir hann, "þó að mikill sé liðsmunur."

Riðu þeir þá aftur heim. Málatilbúnaður spurðist um öll héruð og var sú
orðræða á að róstumikið mundi verða þingið.


56. kafli

Skafti hét maður. Hann var Þóroddsson. Móðir Þórodds var Þórvör. Hún var
dóttir Þormóðar skafta, Óleifssonar breiðs, Ölvissonar barnakarls. Þeir voru
höfðingjar miklir feðgar og lögmenn miklir. Þóroddur þótti nokkuð grályndur
og slægur. Þeir veittu Gissuri hvíta að hverju máli.

Þeir Hlíðverjar og Rangæingar fjölmenntu mjög til þings. Var Gunnar svo
vinsæll að allir sammæltust á það að fylgja honum. Koma þeir nú allir til
þings og tjalda búðir sínar.

Í sambandi með Gissuri hvíta voru þessir höfðingjar: Skafti og Þóroddur,
Ásgrímur Elliða-Grímsson, Oddur frá Kiðjabergi, Halldór Örnólfsson.

Nú ganga menn til Lögbergs einnhvern dag. Stóð þá upp Geir goði og lýsti
vígsök á hendur Gunnari um víg Otkels. Annarri vígsök lýsti hann á hendur
Gunnari um víg Hallbjarnar hvíta, þá um víg Auðólfs, þá um víg Skammkels. Þá
lýsti hann vígsök á hendur Kolskeggi um víg Hallkells. Og þá er hann hafði
lýst öllum vígsökunum var það talað að honum hefði vel mælst. Hann spurði að
þingfesti og að heimilisfangi. Gengu menn síðan frá Lögbergi.