"Eigi réð eg því," segir Gissur, "og hvorgi okkar Geirs."

"Þá muntu vilja synja þess með skynsemd," segir Gunnar.

"Hvers beiðist þú um?" segir Gissur.

"Þess að þú vinnir eið," segir Gunnar.

"Það vil eg gera," segir Gissur, "ef þú vilt þiggja sjálfdæmið."

"Það bauð eg fyrir stundu," segir Gunnar, "en nú þykir mér um meira að
dæma."

Njáll mælti: "Eigi er að níta sjálfdæminu, þess að meiri sæmdar er fyrir
vert, er meira er málið."

Gunnar mælti: "Gera mun eg til skaps vina minna að dæma málið. En það ræð eg
Otkatli að ekki geri hann til saka við mig síðan."

Þá var sent eftir Höskuldi og Hrúti og komu þeir þangað til. Vann þá Gissur
eið og Geir goði en Gunnar gerði gerðina og réðst við engann mann um og
síðan sagði hann upp gerðina.

"Það er gerð mín," sagði hann, "að eg geri verð húss og matar þess er inni
var. En fyrir þrælinn vil eg þér ekki bæta þar er þú leyndir annmarka á
honum. Geri eg hann þér til handa Otkell því að þar eru eyru sæmst sem óxu.
Met eg svo sem þér hafið stefnt mér til háðungar og fyrir það dæmi eg eigi
minna til handa mér en vert er þetta fé, húsið og það er inni brann. En ef
yður þykir betra að vér séum ósáttir þá læt eg þess enn kost en gert hefi eg
þá enn eitt ráð fyrir mér og skal það þá fram koma."

Gissur svarar: "Það viljum vér að þú gjaldir ekki fé en þess beiðum vér að
þú sért vinur Otkels."

"Það skal verða aldrei," segir Gunnar, "meðan eg lifi og mun hann hafa
vináttu Skammkels. Þeirri hefir hann lengi hlítt."

Gissur svarar: "Þó viljum vér nú lúka málinu þó að þú ráðir einn
skildaganum."

Voru þá handsalaðar þessar sættir allar.

Gunnar mælti til Otkels: "Ráðlegra er þér að fara til frænda þinna. En ef þú
vilt vera þar í sveit þá ger þú ekki til saka við mig."

Gissur mælti: "Þetta er heilræði og skal hann svo gera."

Gunnar hafði mikla sæmd af málinu. Riðu menn síðan heim af þingi. Situr nú
Gunnar í búi sínu og er nú kyrrt um hríð.