"Slíks var von," segir Hallbjörn.

Gunnar mælti: "Hér vil eg bjóða fyrir góð boð og bjóða að hinir bestu menn
skipi um í héraðinu."

Skammkell mælti: "Þetta eru áheyrileg boð og ójafnleg. Þú ert vinsæll af
bóndum en Otkell er óvinsæll."

"Bjóða mun eg," segir Gunnar, "að gera um sjálfur og lúka upp þegar og
leggja á vináttu mína og greiða nú allt féið og mun eg bæta þér tvennum
bótum."

Skammkell mælti: "Þenna kost skalt þú eigi þiggja og er það grunnúðlegt ef
þú ætlar að selja honum sjálfdæmi þar er þú ættir að taka."

Otkell mælti: "Eigi vil eg selja þér sjálfdæmi Gunnar."

Gunnar mælti: "Skil eg hér tillögur manna nærgi er launað verður, enda dæm
þú nú sjálfur."

Otkell laut að Skammkatli og mælti: "Hverju skal eg nú svara?"

Skammkell mælti: "Þetta skalt þú kalla vel boðið en víkja máli þínu undir
Gissur hvíta og Geir goða. Munu það þá margir mæla að þú sért líkur
Hallkatli föðurföður þínum er mestur kappi hefir verið."

Otkell mælti: "Vel er þetta boðið Gunnar en þó vil eg að þú ljáir mér
tómstundar til að finna Gissur hvíta og Geir goða."

Gunnar mælti: "Far þú nú með sem þér líkar. En það munu sumir menn mæla að
þú kunnir eigi að sjá sóma þinn er þú vilt eigi þessa kosti er eg býð þér."

Ríður Gunnar heim.

Og er Gunnar var í brautu mælti Hallbjörn: "Hér veit eg mestan mannamun.
Gunnar bauð þér aldrei svo góð boð að þú vildir þiggja eða hvað munt þú mega
ætla þér að deila við Gunnar illdeilum þar sem engi er hans jafningi? En þó
er hann svo vel að sér að hann mun láta standa boð þessi þó að þú þiggir
síðar. Þykir mér ráð að þú farir að finna Gissur hvíta og Geir goða nú
þegar."

Otkell lét taka hest sinn og bjó sig að öllu. Otkell var ekki glöggskyggn.
Skammkell gekk á leið með Otkatli.

Hann ræddi við Otkel: "Undur þótti mér er bróðir þinn vildi eigi taka af þér
þetta starf. Vil eg bjóða þér að fara fyrir þig er eg veit að þér þykir
mikið fyrir ferðum."