"Hver mun hefna," segir hún, "hvort karl hinn skegglausi?"

"Eigi mun það," segir hann, "synir hans munu hefna."

Síðan töluðu þau lengi hljótt og vissi engi maður hvað þau höfðu í
ráðagerðum.

Einu sinni var það að Gunnar var eigi heima. Þá var Sigmundur heima og þeir
félagar. Þar var kominn Þráinn frá Grjótá. Þá sátu þau Hallgerður úti og
töluðu.

Þá mælti Hallgerður: "Því hafið þið heitið félagar Sigmundur og Skjöldur að
drepa Þórð leysingjason fóstra Njálssona en þú hefir mér því heitið Þráinn
að vera við staddur."

Þeir gengu við allir að þeir höfðu þessu heitið henni.

"Nú mun eg gefa ráðið til," sagði hún. "Þið skuluð ríða austur í Hornafjörð
eftir fé ykkru og koma heim um þing öndvert en ef þið eruð heima mun Gunnar
vilja að þið ríðið til þings með honum. Njáll mun vera á þingi og synir hans
og svo Gunnar. En þið skuluð þá drepa Þórð."

Þeir játtu að þessi ráðagerð skyldi fram koma. Síðan bjuggust þau austur í
fjörðu og varaðist Gunnar það ekki og reið Gunnar til þings.

Njáll sendi Þórð leysingjason austur undir Eyjafjöll og bað hann vera í
brautu eina nótt. Hann fór austur og gaf honum eigi austan því að fljótið
var svo mikið að langt var um óreitt. Njáll beið hans eina nótt því að hann
ætlaði að hann skyldi riðið hafa til þings með honum. Njáll mælti við
Bergþóru að hún skyldi senda Þórð til þings þegar hann kæmi heim. Tveim
nóttum síðar kom Þórður austan.

Bergþóra sagði honum að hann skyldi til þings ríða "en nú skalt þú fyrst
fara upp í Þórólfsfell og sjá þar um bú og vera þar eigi lengur en eina nótt
eða tvær."