Og er hann mætir Kol mælti Atli til hans: "Gengur vel klyfjabandið?" segir
Atli.

"Það mun þig skipta engu mannfýlan," segir Kolur, "og engan þann er þaðan
er."

Atli mælti: "Það átt þú eftir er erfiðast er, en það er að deyja."

Síðan lagði Atli spjóti til hans og kom á hann miðjan. Kolur sveiflaði til
hans öxi og missti hans. Síðan féll Kolur af baki og dó þegar.

Atli reið þar til er hann fann verkmenn Hallgerðar og mælti: "Farið upp til
hests Kols og geymið hans. Kolur er fallinn af baki og er hann dauður."

"Hefir þú vegið hann?" sögðu þeir.

Hann svarar: "Svo mun Hallgerði sýnast sem hann hafi eigi sjálfdauður
orðið."

Síðan reið Atli heim og segir Bergþóru vígið. Hún þakkar honum verk þetta og
orð þau sem hann hafði um haft.

"Eigi veit eg," segir Atli, "hversu Njáli mun þykja."

"Vel mun hann í höndum hafa," segir hún, "og mun eg segja þér eitt til marks
um að hann hefir haft til þings þrælsgjöld þau er vér tókum við fyrra sumar
og munu þau nú koma fyrir Kol. En þó að sættir verði þá skalt þú þó vera var
um þig því að Hallgerður mun engar sættir halda."

"Vilt þú nokkuð senda mann til Njáls," segir Atli, "að segja honum vígið?"

"Eigi vil eg það," segir hún. "Mér þætti betur að Kolur væri ógildur."

Þau hættu þá talinu.

Hallgerði var sagt víg Kols og ummæli Atla. Hún kvaðst launa skyldu Atla.
Hún sendi mann til þings að segja Gunnari víg Kols. Hann svaraði fá og sendi
mann að segja Njáli. Hann svaraði engu.

Skarphéðinn mælti: "Miklu eru þrælar aðgerðameiri en fyrr hafa verið. Þeir
flugust þá á og þótti það ekki saka en nú vilja þeir vegast" og glotti við.

Njáll kippti ofan fésjóðum er uppi var í búðinni og gekk út. Synir hans
gengu með honum. Þeir komu til búðar Gunnars.