33. kafli

Gunnar reið og þeir allir til þings. En er þeir komu á þing þá voru þeir svo
vel búnir að engir voru þeir þar að jafnvel væru búnir og fóru menn út úr
hverri búð að undrast þá. Gunnar reið til búða Rangæinga og var þar með
frændum sínum. Margur maður fór að finna Gunnar og spyrja hann tíðinda. Hann
var við alla menn léttur og kátur og sagði öllum slíkt er vildu.

Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan
Mosfellingabúð. Þá sá hann konur ganga í móti sér og voru vel búnar. Sú var
í ferðarbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar
Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kvenna hún væri. Hún
nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún
mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann
kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var
svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir
sér skarlatsskikkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á
bringu henni og var bæði mikið og fagurt. Gunnar var í tignarklæðum þeim er
Haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi
Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri
ógefin.

Hún sagði að svo væri "og er það ekki margra að hætta á það," segir hún.

"Þykir þér hvergi fullkosta?" segir hann.

"Eigi er það," segir hún, "en mannvönd mun eg vera."

"Hversu munt þú svara ef eg bið þín?" segir Gunnar.

"Það mun þér ekki í hug," segir hún.

"Eigi er það," segir hann.

"Ef þér er nokkur hugur á," segir hún, "þá finn þú föður minn."

Síðan skildu þau talið.

Gunnar gekk þegar til búðar Dalamanna og fann menn úti fyrir búðinni og spyr
hvort Höskuldur væri í búð en þeir sögðu að hann var víst þar. Gekk þá
Gunnar inn. Höskuldur og Hrútur tóku vel við Gunnari. Hann settist niður í
meðal þeirra og fannst það ekki í tali þeirra að þar hefði nokkur misþykkja
í meðal verið.